Tímarit Máls og menningar - 01.12.1991, Qupperneq 70
armannanna. Bubbi bjó svipaða skynjun og
Megasar í miklu hversdagslegri búning,
kippti henni ofan af stalli skáldsins og sann-
færði unglingana um að allir gætu búið til
texta, rétt eins og frumpönkaramir höfðu
sannfært þá um að allir gætu spilað. ís-
lenska nýbylgjan varð jafn sterk og raun bar
vitni vegna þess að skipulag hennar var í
senn anarkískt og lýðræðislegt. Allir gátu
tekið til máls.
Jafnframt því sem pönkið var opið öllum,
t.d. án tillits til þess hvort þeir kynnu að
spila, fylgdi því hvatning eða jafnvel krafa
um sköpunargleði. Menn komu sér ekki
bara niður á einhvem stíl og héldu sig við
hann, heldur voru tónlistarmenn í pönki
stöðugt að fikra sig áfram og reyna nýja
hluti. Þannig var andinn í félagslegu um-
hverfi þeirra öllu. Augljóslega höfðu pönk-
aramir lært af sögunni. Þeir forðuðust að
festa sig í einföldum skilgreiningum og
básum, heldur voru þeir stöðugt á hreyf-
ingu. Þetta átti við bæði um tónlist, klæða-
burð og önnur þau merki sem þeir sendu til
umhverfis síns.
íslenska pönkbylgjan hreif aldrei nema
lítinn hluta æskunnar fyllilega með sér,
sennilega örfá þúsund æskufólks, og utan
Reykjavíkursvæðisins var hvergi að finna
nema fáeina pönkara á hverjum stað. Samt
urðu tugir hljómsveita til í þessum menn-
ingarheimi, og flestar þeirra mörkuðu spor
með tónleikum og plötum. Áhrif pönksins
á íslenska æskumenningu urðu í raun gífur-
leg. Eldri kynslóðir poppara lentu í varnar-
stöðu, og gátu ekki lengur hvílt makinda-
lega á lárviðarlaufum sem fyrri afrek höfðu
fært þeim. Margir vilja líta á pönkbylgjuna
eins og stormsveip sem feykti burt hrófa-
tildri ríkjandi dægurlagamenningar og
skiidi eftir auða jörð. Þegar betur er að gáð,
er réttara að líkja henni við fjölæra plöntu,
sem ryður burt veikburða gróðri og ber —
og fellir — síðan eigin blóm. Þegar næsta
vetri slotar, vaxa blóm hennar að nýju, og
pönkið átti hvað ríkastan þátt í að gera
íslenska poppakurinn jafn lífvænlegan og
hann hefur verið síðustu misserin. Sé litið á
tónlistina eina, ól pönkbylgjan annars vegar
upp nýja og metnaðarfulla kynslóð tónlist-
armanna, en hins vegar ögraði hún bæði
eldri og yngri kynslóð til að vinna sín störf
af meiri metnaði en t.d. hafði ríkt síðustu
misserin fyrir pönkbylgjuna.
Helsti ávinningur pönkbylgjunnar er þó
kannski í því fólginn að hún skapaði miklu
sterkara félagslegt umhverfí í kringum
dægurtónlist en áður hafði þekkst. Hún
skákaði t.d. algerlega hippunum sem þó
höfðu á tímabili myndað öfluga æsku-
menningu. Þráðurinn frá „rokki í Reykja-
vík“ hefur aldrei fallið algerlega niður, og
úr því félagslega umhverfi spruttu síðar
meðal annarra Sykurmolamir.
Hér að framan hefur því verið lýst, hvem-
ig rokkið nálgaðist smám saman íslenska
þjóðmenningu. Eldri dægurtónlistarmenn
og plötuútgefendur reyndu að tengja þetta
tvennt saman á sjötta og sjöunda áratugnum
með því að láta gera íslenska texta við
rokkið. Æskunni var hins vegar meira í mun
að verða fullgildur aðili að alþjóðlegu sam-
félagi æskunnar, og hún lét smám saman
meira að sér kveða á menningarsviðinu og
varð um leið sjálfstæðari. Tónlistarmenn-
imir náðu smám saman valdi á rokkform-
inu, krakkamir á dansgólfinu náðu smám
saman valdi á dansi, klæðaburði, hár-
greiðslu, slangri og fleiru, og samskiptanet
æskufólksins urðu smám saman sjálfstæð-
ari og öflugri. Hægt er að orða þetta svo að
á hippatímanum hafi íslensk æska loks
68
TMM 1991:4