Tímarit Máls og menningar - 01.06.1994, Page 35
í sjálfslýsingunni ýkir hann bæði trúgirni sína, hégómaskap og smá-
smugulega nákvæmni. Nú er ég ekki að segja að ekki hafi verið einhver fótur
fýrir þessu öllu, aðeins að drættirnir hafi verið ýktir í þágu líflegri, skoplegri
og áhrifameiri frásagnar. Svo snjöll var þessi persónugerð að menn tóku hana
trúanlega í smáatriðum og heimfærðu upp á höfund sinn, og hann brá sér
líka í þetta gervi þegar vel lá á honum.
Flestir hafa fjallað um íslenskan aðal og Ofvitann sem sjálfsævisögulegar
heimildir. Minnst hefur verið á smámunalega nákvæmni Þórbergs í staða-
lýsingum og tímaákvörðunum, sem hefur þótt heldur frumstætt og sérvisku-
legt frásagnareinkenni. Að því er varðar staðalýsingar er þetta svolítið orðum
aukið. Ef ffá er talin lýsingin á Bergshúsi og kompunni sem Þórbergur flyst
í þaðan fer lítið fýrir umhverfislýsingum. Reykjavíkurlýsingar eru t.a.m.
engar nema tvær stuttar, mjög huglægar klausur. Önnur er svona:
Þetta kvöld var eitt af hinum fáu augnablikum þeirra tíma, er
dásemdir himinsins gátu hafið sálina yfir þau rök menningarinnar,
að hún væri grafin niður í bæjarkríli úr svipfjótum blikk-kössum,
opnum sorprennum, forarblautum moldarstígum, sem tengdu
saman hreinleika hjartnanna.5
Svo að eitt annað dæmi sé nefnt hefði maður getað átt von á lýsingu á húsi
Kennaraskólamusterisins þegar „skítkokkurinn" stígur þar inn fæti í fyrsta
sinn, en svo er ekki. Hins vegar er skólastofunni lýst í stórum dráttum. Komu
„Þórbergs“ til Siglufjarðar og Akureyrar fylgir engin umhverfislýsing, að
öðru leyti en því að lýst er grútarlyktinni sem gýs á móti honum þegar hann
dregst á land, „úrvinda af svefnleysi og sönnum lífsviðbjóði" (67). Almennt
gerir Þórbergur sér ekki far um að bregða upp umhverfislýsingu fyrir innri
sjónum lesenda sinna. Hér sem endranær er hann að fjalla um „söguefni
sálarinnar“. Allt lýtur persónulýsingu ofvitans, það eru stemningar hugans
og hjartans sem marka umhverfislýsingum stað í þessum bókum. Skýr dæmi
þessa má finna í Hrútafjarðarköflum íslensks aðals. Sú frásögn gerist að vísu
„í umhverfi“. En því umhverfi er ekki nákvæmlega lýst. í framhjágöngunni
eru nefnd nöfn bæja sem leiðin liggur hjá, en náttúrulýsingar sem fyrir koma
virðast gerðar til að endurspegla hugarástand sögumanns, sælu hans og
kvíða, og ennfremur er ímynd elskunnar hans hvað eftir annað samsömuð
náttúrunni. Tímaumgjörð frásagnarinnar er aftur á móti mjög nákvæm og
henni jafnvel fylgt eftir með veðurlýsingu.
Þessi nákvæmni um tímasetningu og vissa staðhætti er aftur á móti
ómissandi hluti af persónulýsingu sögumanns/aðalpersónu, sem verður
stundum kátbrosleg fyrir bragðið:
TMM 1994:2
33