Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2005, Side 27

Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2005, Side 27
27 Tímarit um menntarannsóknir, 2. árgangur 2005 2000). Í skóla sem lærir taka starfsmenn ytri kröfum um breytingar með opnu en gagnrýnu hugarfari og leitast við að hafa mótandi áhrif á útfærslu þeirra. Skóli sem hefur reynslu af farsælu breytingastarfi hefur því að jafnaði mun meiri möguleika til þess að takast áfram á við breytingar en sá sem ekki á að baki slíka sögu (Fullan, 2001; 2005). Matshugtök Margar skilgreiningar eru til á hugtakinu mat en oftast er um að ræða umsögn eða dóm um afmarkað efni sem byggður er á traustum gögnum (Börkur Hansen, 1992; Gerður G. Óskarsdóttir, 1999; Steinunn Helga Lárusdóttir, 2002, 2003; Fitzpatrick, Sanders og Worthern, 2004). Innra mat eða sjálfsmat er afmarkaðra hugtak sem jafnframt felur í sér að matið beinist að eigin stofnun og sé framkvæmt af þeim sem þar starfa. Bollen (1987) bendir á að kennarar hafi í tímans rás metið eigin störf með einum eða öðrum hætti en nútíma hugmyndir um markvissa þróun skóla geri ráð fyrir kerfisbundnu mati sem framkvæmt sé af þeim sem þar starfa. Sjálfsmat skóla megi skilgreina sem kerfisbundna rannsókn á eigin starfsemi (bls. 21). Orðalag grunnskólalaganna „að innleiða aðferðir til að meta skólastarfið“ felur í sér að hver skóli velji sjálfur aðferðir og þrói verklag við að meta eigin starfsemi. Ekki er með beinum hætti vikið að því hvað skuli gera að mati loknu en lögð áhersla á að matið sé umbótamiðað. Til að skýra ákvæðið um sjálfsmat nánar gaf menntamálaráðuneytið út bæklinginn Sjálfsmat skóla árið 1997. Í honum er fjallað um tilgang og markmið með sjálfsmati og sett fram viðmið sem heildstæð sjálfsmatskerfi þurfa að uppfylla. Sambærilega umfjöllun er að finna í Aðalnámskrá grunnskóla. Almennur hluti (1999). Þá hafa verið gefnar út handbækur og leiðbeiningakver um sjálfsmat og hvernig sé hægt að standa að framkvæmd þess. Má í því sambandi nefna Mat á skólastarfi, hvað og hvernig? (1999) eftir Gerði G. Óskarsdóttur og Mat á skólastarfi. Handbók fyrir skóla (2002) eftir Steinunni Helgu Lárusdóttur. Í báðum þessum ritum er dregin upp mynd af helstu hugtökum og verklagi við sjálfsmat. Í handbók Steinunnar Helgu (2002) er yfirlit yfir íslenskt efni um mat á skólastarfi. Nokkrar meistaraprófsritgerðir hafa beinst að því að kanna framkvæmd sjálfsmats.3 Af þessu má sjá að til er talsvert af aðgengilegu efni um áherslur og vinnulag við sjálfsmat í íslenskum skólum. Aðferðir við sjálfsmat Ýmsum aðferðum má beita við að afla upplýsinga um skólastarf. Mikilvægt er að slík gagnasöfnun sé traust svo á henni megi byggja. Afla má upplýsinga með spurningalistum, viðtölum, athugunum o.fl. Í flestum skólum er einnig að finna margvísleg gögn um nemendur sem nota má sem grundvöll fyrir mat. Hér má nefna upplýsingar um árangur í ýmsum námsgreinum, ástundun, framfarir í námi, þátttöku í félagsstarfi og afbrot. Af öðrum sviðum má nefna mætingar kennara, notkun bókasafns, val kennslubóka, umfang og eðli vettvangsferða, þátttöku í samstarfsfundum og virkni foreldra. Markmiðið er að öðlast þekk- ingu sem er áreiðanleg, lýsandi og nytsamleg fyrir mat og ákvarðanir á grundvelli þess. Markviss öflun upplýsinga er því nauðsynlegur hluti af aðferðum við mat á eigin starfsemi. Matsfræði Margir leiðandi fræðimenn á sviði mats og skólaþróunar fjalla um mikilvægi þess að afla upplýsinga um starfshætti í skólum til að gera starfsfólki kleift að leggja mat á hverju megi breyta og hvar umbóta sé þörf (Fullan, 2001; Hopkins, Ainscow og West, 3 Sjá t.d. M.Ed.-ritgerð Guðrúnar Soffíu Jónasdóttur (2004), Sjálfsmat grunnskóla í Kópavogi og ritgerð Ernu M. Sveinbjarnardóttur (2001), Mat á skólastarfi og áhrif þess í þremur grunnskólum á Íslandi. Sjálfsmat í grunnskólum

x

Tímarit um menntarannsóknir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit um menntarannsóknir
https://timarit.is/publication/1140

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.