Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2005, Page 54

Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2005, Page 54
54 Tímarit um menntarannsóknir, 2. árgangur 2005 hefur verið mótandi í leikskólamálum á Íslandi. Þróunarsálfræðikenningar hvers tíma settu einkum svip sinn á námið, auk vettvangsnáms og hagnýtra viðfangsefna. Leitað var í smiðju nágrannaþjóðanna, einkum til Svíþjóðar og Bandaríkjanna, við þróun og uppbyggingu námsins (Jóhanna Einarsdóttir, 2004a; Valborg Sigurðardóttir, 1998). Á síðastliðnum tveimur áratugum hafa orðið gífurlegar breytingar bæði á námi leikskólakennara og á starfsvettvanginum. Dagvistarheimili hafa breyst í leikskóla (Lög um leikskóla nr. 48/1991), fóstrur kallast nú leikskólakennarar og hlutverk leikskólans er ekki lengur að vera skjól og athvarf fyrir börn fátækra foreldra, heldur fyrsta skólastigið (Lög um leikskóla nr. 78/1994). Menntunin hefur færst á háskólastig og miklar breytingar hafa orðið á fræðasviði leikskólakennara. Nýlegar rannsóknir í íslenskum leikskólum benda til þess að leikskólakennarar standi á krossgötum og séu íhugandi um hlutverk sitt og leikskólans, velti fyrir sér því sem var – gömlum gildum – og nýjum straumum, og hugleiði hvaða stefnu best sé að taka (Jóhanna Einarsdóttir, 2003). Í þeim tilgangi að afla nánari upplýsinga um viðhorf leikskólakennara til eigin starfs og starfsaðferða leikskólans voru tekin viðtöl við leikskólastjóra, en ætla má að þeir séu leiðandi í faglegri umræðu um leikskólastarf og hlutverk leikskólakennara. Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna hvernig íslenskir leikskólastjórar tala um hlutverk og markmið leikskólans og greina hugmyndir þeirra um nám og kennslu í leikskóla á tímum mikilla breytinga á starfsvettvangi þeirra. Kennsla - umönnun Af framansögðu er ljóst að umönnun hefur verið í öndvegi í íslenskum leikskólum frá upphafi vega. Hugtakið kennsla er hins vegar tiltölulega nýtt í íslenskri umræðu um leikskólastarf. Nýleg rannsókn meðal íslenskra leikskólakennara leiddi í ljós að mörgum þeirra er ekki tamt að nota hugtakið kennsla og virðast tengja það beinni kennslu í grunnskólum. Sumir þeirra töldu þörf á að endurskilgreina kennsluhugtakið og líta á það í víðari merkingu. Þeir voru almennt sammála um að kennsla og umönnun væri samtvinnuð og sumir létu í ljósi þá skoðun að umönnun, virðing og væntumþykja þyrftu að koma fyrst, því ef börnum liði ekki vel í leikskólanum lærðu þau ekki neitt (Jóhanna Einarsdóttir, 2003). Þessar niðurstöður eru sambærilegar rannsóknum á hinum Norðurlöndunum (Broström, 2003; Niikko, 2001). Danskir „pedagogar“ forðast t.d. að tala um kennslu í leikskólum og neita að láta kalla sig kennara. Starfshættir þeirra einkennast af áherslu á umönnun, tengsl, samskipti, leik og val barnanna fremur en inntakið í náminu (Broström, 2003). Í enskumælandi löndum eru hins vegar hugtökin kennsla og menntun (education, teaching) notuð í leikskólum sem og annars staðar í skólakerfinu. Að einhverju leyti má rekja þennan mun til tungumálsins en einnig til hugmyndafræðilegs munar milli leikskóla á Norðurlöndunum og í hinum enskumælandi heimi. Í þessari rannsókn er ætlunin að fá ítarlegri mynd af þeim viðhorfum til umönnunar og kennslu sem greina má í orðræðu íslenskra leikskólakennara. Á undanförnum árum hafa fræðimenn töluvert velt vöngum yfir hugtökunum um- önnun og kennsla í leikskólum, hvað þau eigi sameiginlegt, hvað skilji þau að og hvort og hvernig megi samtvinna umönnun og kennslu í vinnu með leikskólabörnum og yngstu grunnskólabörnunum. Hugtakið „educare“ hefur verið notað í enskumælandi löndum og er með því gerð tilraun til að tengja kennslu og umönnun. Lögð er áhersla á þátt samskipta og félagslegra tengsla í námi barna og litið svo á að ung börn læri best í umhverfi þar sem líkamlegum og tilfinningalegum þörfum þeirra er mætt (Smith, 1996). Í nýlegri skýrslu OECD um kennslu ungra barna er litið svo á að hugtökin umönnun (care) og kennsla (education) séu óaðskiljanleg og leikskólastarf þurfi að hafa þau bæði að leiðarljósi (Bennett, 2003; OECD, 2001). Aðrir fræðimenn hafa lagt til að umönnunar- hugtakið verði áfram notað í leikskólum og Hvernig tala leikskólastjórar um leikskólann?

x

Tímarit um menntarannsóknir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit um menntarannsóknir
https://timarit.is/publication/1140

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.