Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 14
13
kröfur og eru á dagskrá hjá flestum intersex samtökum: Aukin virðing og
viðurkenning sem m.a. myndi birtast í því að skurðaðgerðum á intersex
einstaklingum verði hætt og þeir gætu valið þriðja kyn, til viðbótar karl-
kyni og kvenkyni.
Kynferði, kyngervi, kynvitund og kynjalíkön
Samkvæmt Toril Moi var greint fræðilega á milli orðanna kynferðis og
kyngervis innan læknisfræði á 6. og 7. áratug síðustu aldar og rekur hún
það til lækna sem unnu með vandamál sem tengdust intersex einstakling-
um og transfólki.24 Aðgreiningin milli kynferðis og kyngervis, segir Moi,
varð það tæki sem átti að skýra ósamræmið sem „hrjáði“ t.d. transfólk,
þegar kynvitund þess og kynferði fóru ekki saman. Á þessu vandamáli
var fyrst hægt að finna lausn þegar skurðlækningum óx fiskur um hrygg
og hæfni skapaðist til að breyta ytri kynfærum til samræmis við kynvit-
und viðkomandi. Moi bendir á hvernig hugtakaparið kynferði – kyngervi
tók flugið og ferðaðist áfram á vit nýrra fræðasviða, en frá læknisfræði fór
það yfir í sálfræði, þaðan sem það rataði inn á svið kynjafræði og hinsegin
fræða. Innan sálfræði kom það í hlut sálgreinisins Roberts Stoller að þróa
aðgreininguna enn frekar, en hann mun fyrstur hafa sett á flot hugtakið
kynvitund (e. gender identity) sem hann skilgreindi sem þá tilfinningu að
skynja/vita hvaða kyni maður tilheyrir.25
Sú fræðikona sem markar hvað skýrast upphaf notkunar greinarmun-
arins milli líkamlegs kynferðis og samfélagslegs kyngervis innan kynjafræði
er Gayle Rubin en hún hélt því fram í grein árið 1975 að yfirráð karla í
vestrænum samfélögum byggðust á (rang)túlkun menningar og samfélags
á merkingu líffræðilegs kyns.26 Fræðilegur áhugi Rubin á viðfangsefninu
tengist nákvæmleg ekkert þriðja kyninu, hvað þá kynvitund, heldur var
society“, euroasiapub.org, í desember 2012, sótt 27. nóvember 2013 af http://www.
euroasiapub.org/IJRESS/dec2012/7.pdf.
24 Toril Moi, What is a Woman?, bls. 21.
25 Sama heimild, bls. 22.
26 Gayle Rubin, „The Traffic in Women: notes on the “Political Economy of Sex“,
Deviations: a Gayle Rubin Reader, Durham og London: Duke University Press,
[1975], 2011, bls. 33–65. Löngu síðar, eða árið 1989, gagnrýndi Rubin eigin skrif og
sagði að hugtakið sex á ensku hefði tvær merkingar, kynferði og kynlíf, sem rynnu
saman að hluta til í grein sinni frá 1975 og gerðu hana þar með óskýra. Einnig
gagnrýndi hún skilning sinn á ættartengslum og samfélagskerfum sem lögð voru
til grundvallar því hvernig kúgun kvenna flyttist áfram kynslóð fram af kynslóð.
EITT, TVö, ÞRJÚ KYn