Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 17
16
að drengurinn var eineggja tvíburi og aðgerðin liður í tilgátu rannsóknar
Money sem gekk út á að sanna kenninguna um að kyngervi væri mik-
ilvægara kynferðinu varðandi mótun kynvitundar. Spurningar Money
voru eftirfarandi: Þróa eineggja tvíburar, annar alinn upp sem drengur,
hinn sem stúlka, mismunandi kynvitund? Eða með öðrum orðum: Hvort
er sterkara varðandi kynvitund einstaklings, hið líffræðilega kynferði eða
hin kynjaða félagsmótun? Fyrstu niðurstöður tilraunar Moneys virtust
óyggjandi: Félagsmótunin vann. Barninu var lýst sem dæmigerðri lítilli
stúlku, gerólíkri tvíburabróður sínum á allan hátt. Samkvæmt Kessler tók
fjöldi fræðimanna, þ.á m. femínistar, niðurstöðunum fagnandi og töldu líf-
fræðilega nauðhyggju þar með endanlega afsannaða.34 Ekki er þó öll sagan
sögð, né reyndist hún heldur sannleikanum samkvæm, að mati Kessler.
Annað kom í ljós löngu síðar þegar kynfræðingurinn Milton Diamond
„fann“ tvíburana hans Money sem þá voru löngu fullorðnir.35 Samkvæmt
Diamond hafði drengurinn sem breytt var í stúlku aldrei sætt sig við kyn-
hlutverk sitt og um fjórtán ára aldur fékk hann að eigin ósk bæði karl-
kyns hormón auk þess að gangast undir skurðaðgerð. Jóna breyttist aftur
í Jón og þvert á niðurstöður Moneys hljóðaði ályktun þeirra Diamond og
Sigmundson nú svo að kynferðið væri kyngervinu yfirsterkara. Kynvitund
Jóns var allan tímann sú að hann/hún væri karlkyns, hvað sem leið uppeld-
inu og skurðaðgerðinni.36
Kessler fjallar um þessa rannsókn Moneys ríflega tuttugu árum síðar
en svo vildi til að hún var meðal hinna allra fyrstu sem brugðust við nið-
urstöðum hans í femínísku fræðasamhengi.37 Kessler kveðst, eftir á að
hyggja, undrast hið fullkomna andvaraleysi gagnvart þessum niðurstöðum
á sínum tíma og ekki síst hve fljótt kenning Moneys varð að skýru við-
miði innan læknisfræðinnar þar sem hún var fljótlega kynnt sem heilagur
34 Sama heimild, bls. 6.
35 Milton Diamond, „Sexual Identity, Monozygotic Twins Reared in Discordant Sex
Roles and a BBC Follow-Up,“ Archives of Sexual Behavior 2/1982, bls. 181–187.
Money hafði greint frá því að hann hefði misst samband við þá og því ekki getað
fylgt tilraun sinni eftir eins og til stóð.
36 Milton Diamond og Keith Sigmundson, „Sex Reassignment at Birth: Long-term
review and Clinical Application,“ Archives of Pediatric and Adolescent Medicine
151/1997, bls. 298–304.
37 Suzanne Kessler og Wendy McKenna, Gender: an ethnomethodological approach, new
York: Wiley-Interscience, 1978. Þessi bók hafði mikil áhrif á þróun femínískra
fræða á 8. og 9. áratug síðustu aldar.
Sólveig AnnA BóASdóttiR