Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 23
22
Lítum næst til búddatrúar og birtingarmynda þriðja kynsins í því sam-
hengi.58 Trúarbragðafræðingurinn Katarina Plank bendir á að í búddískri
heimsfræði sé lýst fjórum mismunandi mannlegum tilvistarformum. Hægt
sé að fæðast sem karl, kona, tvíkynja eða sem paṇḍāka, sem kemst næst
því að vera þriðja kynið, en paṇḍāka er skilgreind sem persóna sem er
kynlaus eða millistig milli tveggja kynja. Til viðbótar við þessa flóru innan
búddatrúar er einnig mögulegt, bæði fyrir guði og menn, að skipta um
kyn eða flytjast á milli kynja.59 Í skýringum við Dhammapada, sem er eitt
þekktasta ritið sem eignað er Búddha, er t.d. sagt frá karlmanni sem varð
ástfanginn af munki og breyttist í konu.60 Karlmaðurinn sem skipti um
kyn og munkurinn giftust, og eignuðust börn. Síðar á ævinni sér kynskipt-
ingurinn eftir öllu saman, biður munkinn fyrirgefningar á tiltækinu og
breytist aftur í karlmann. Eftir þetta hliðarspor á þroskaferlinum nær hann
æðsta andlega stigi fullkomnunar, eða því sem kallað er arahatskap innan
búddatrúar. Kynskiptin drógu í engu úr getu og möguleikum persónunnar
til andlegs þroska og fullkomnunar; þvert á móti bendir Plank á að kyn-
skiptin virðist tengjast karma, þ.e. þau tilheyri orsök og afleiðingu allra
hluta og séu mikilvægur þáttur vegferðarinnar til andlegs þroska. Því þarf
það síður en svo að koma á óvart, ályktar Plank, að frásagnir um kynskipti,
eins og raun ber vitni, sé að finna í klausturhefð Búddatrúar, vinayan. Bæði
karlar og konur skipta um kyn á leið sinni til andlegrar fullkomnunar.61
Búddha virðist hafa viðurkennt þetta fyrirbæri fullkomlega og ráðlagt ein-
staklingnum að fylgja vinayan-reglunum í einu og öllu, jafnframt því að
fara eftir hinum kynjuðu reglum samfélagsins. Sá sem áður var karlmaður
skal eftir kynskiptin fylgja bhikkhuni-reglunum sem eru reglur fyrir líferni
ölmusukvenna og sú sem áður var kona skal eftir kynskiptin fylgja bhikkhu-
reglunum sem eru reglur fyrir líferni ölmusukarla. Þannig hafa kynskiptin
sem slík engin áhrif á áframhaldandi veru lærisveina Búddha í trúarhópn-
58 Katarina Plank, „Begär och visdom – buddhistiska spänningsfält mellan sexualitet
och asketism“, Sex för Guds skull. Sexualitet och religiösitet i världens religioner, Lund:
Studentlitteratur, 2010, bls. 127–164. Búddatrú er önnur fjölmennustu trúarbrögð
á eftir hindúisma í nepal en á Indlandi hefur búddatrú fáa áhangendur.
59 Sama heimild, bls. 143.
60 Sagan sem hér fer á eftir kemur fram hjá Katarinu Plank í grein hennar „Begär och
visdom – buddhistiska spänningsfält mellan sexualitet och asketism“, bls. 143.
61 Hér má benda á að líf þeirra sem lifa samkvæmt klausturhefðinni er mjög ólíkt því
sem þekkist í kristinni klausturhefð en hér verður ekki farið nánar út í það.
Sólveig AnnA BóASdóttiR