Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Qupperneq 25
24
vera karlinum meðhjálp við hæfi (1Mós 2.18 – 22).67 Þannig skapar Jahve
tvær manneskjur, karl og konu, með sameiginlegt hlutverk sem felst í að
fjölga mannkyninu, yrkja jörðina og gera sér hana undirgefna (1Mós1.28).
Hvorki Abraham, Móses né aðrir spámenn Gamla testamentisins, hvað þá
Jesús eða Múhameð, vísi til þriðja kynsins, líkt og þekkist í hindúisma, og
enn síður til flakks á milli kynja, líkt og finna megi dæmi um í búddatrú.
Þá ályktun má draga af ofangreindri umfjöllun að býsna ólíkar hug-
myndir fyrirfinnist í hinum ólíku trúarbrögðum sem hér hefur verið lýst.
Í trúarritum hindúisma og búddatrúar er þriðja kynið vel þekkt, sem og
það að flakka á milli kynja, bæði meðal guða og manna, en því sama er ekki
að heilsa í eingyðistrúarbrögðunum. Alveg er ljóst að þekking á óvenju-
legu útliti líkamans hefur lengi verið til staðar í mörgum mismunandi
samfélögum. Tvíkynjungar (e. hermaphrodites), þ.e. manneskjur með æxl-
unarfæri bæði karls og konu sem nú um stundir kallast oftast þriðja kynið,
þekktust fyrr á tímum og höfðu ákveðin hlutverk í samfélaginu. Þá kann
fjöldi rannsókna mannfræðinga að segja frá margbreytilegum kynhlut-
verkum, auk karl- og kvenhlutverka. Eitt þeirra, berdache, eða tveggja-anda
kynhlutverkið, (e. two-spirit gender) var þekkt meðal innfæddra í norður-
Ameríku þar til um 1920–1930. Algengast var að berdache einstaklingar
væru karlkyns sem samsömuðu sig hlutverkum og sjálfsmynd kvenna, en
hitt þekktist líka að þeir væru konur sem samsömuðu sig hlutverkum karla.
Fyrri rannsóknir tengdu þetta fyrirbæri fyrst og fremst kyngervi, en síð-
ari rannsóknir tengja það fremur umræðu um þriðja kynið, þ.e. einhvers
konar blöndu af karl-konu eða kven-karli.68
Mannfræðingurinn Gilbert Herd hefur rannsakað hvernig þriðja kyn-
inu hefur verið mætt í mismunandi samfélögum í heiminum.69 Hann
tekur sem dæmi guevedoche í Dóminíska lýðveldinu og kwolu-aatmwol í
nýju-Gíneu, en í báðum tilvikum er um að ræða einstaklinga með óljós
ytri kynfæri sem nutu samfélagslegrar viðurkenningar upp að vissu marki.
67 Christine E. Gudorf, „The Erosion of Sexual Dimorphism”, bls. 866–868. Kór-
aninn, trúarrit múslíma, inniheldur enga sköpunarsögu í líkingu við sköpunarsögur
Gamla testamentisins en þar má þó finna lauslega tilvísun til guðlegs uppruna
manneskjunnar í Suru 4:1 líkt og í gyðinglegum og kristnum sköpunarsögum og
persónum.
68 Sabine Lang, Men as Women, Women as Men: changing gender in native American
cultures, þýðing John L. Valtine, Austin: University of Texas Press, 1998.
69 Gilbert Herdt, „Mistaken Sex: Culture, Biology and the Third sex in new Guinea“,
Third Sex, Third Gender: beyond sexual dimorphism in culture and history, ritstj. Gilbert
Herdt, new York: Zone Books, 1996, bls. 419–445.
Sólveig AnnA BóASdóttiR