Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Síða 26
25
Þetta hefur þó breyst mikið, segir Herdt, og það umburðarlyndi og jafnvel
viðurkenning sem þriðja kynið naut áður fyrr í þessum samfélögum er nú á
undanhaldi. Ástæðan er sú að farið er að líta á þriðja kynið í auknum mæli
líkt og á Vesturlöndum, nefnilega sem læknisfræðilegt vandamál sem með-
höndla eigi með skurðaðgerðum og hormónameðferð.70 Fleiri rannsóknir
styðja þetta mat. Alice Domurat Dreger bendir á þætti sem á 19. og 20. öld
stuðluðu að því að fleiri og fleiri einstakingar greindust sem þriðja kyn og
voru meðhöndlaðir af læknum í framhaldi af því.71 Í fyrsta lagi nefnir hann
þróun læknisfræðinnar, sérstaklega á sviði fæðinga- og kvensjúkdóma-
fræði. Læknar tóku að grandskoða ytri kynfæri hvítvoðunga og fundu að
sjálfsögðu fleiri tilvik sem hægt var að flokka sem óeðlileg. Um þessi tilvik
var síðan skrifað í læknisfræðileg tímarit sem þýddi að enn fleiri læknar
voru á verði gagnvart óeðlilegu útliti kynfæra. Þannig atvikaðist það, segir
Dreger, að það kom í verkahring læknisfræðinnar að skera úr um eðlileg
og óeðlileg kynfæri. Dreger gagnrýnir mjög starfsemi læknisfræðinnar á
þessu sviði allt frá því í byrjun 20. aldar og segir að gagnstæðukynjalíkanið,
sem lá til grundvallar framgöngu læknanna, hafi stuðlað að því að þurrka
út eldri hugmyndir menningarinnar um tvíkynjunga eða þriðja kynið.72
Þessi sjónarmið mannfræðinganna vil ég að lokum tengja hugmyndum
Júlíu Kristeva um hið auvirðilega (e. abject), sem er að hennar mati til-
finning andstyggðar og óbeitar sem við höfum gagnvart óvenjulegum,
óskiljanlegum fyrirbærum, hlutum, hugmyndum og furðusögum. Við hinu
óskiljanlega og furðulega, segir hún, er brugðist með andúð og uppnámi,
jafnframt sem það heillar og dregur að sér óheyrilega athygli, til þess eins
þó að stökkva því á brott.73 Litríkt orðfæri og skilningur Kristeva getur ef
til vill varpað nokkru ljósi á af hverju óvenjulegt útlit kynfæra hefur dregið
að sér svo ríka athygli læknavísindanna.
Umræða og ályktanir
Hvatinn að þessari grein var nýleg lagasetning í Þýskalandi sem heimilar
að ekki sé tekin ákvörðun um kyn intersex einstaklinga við fæðingu heldur
70 Sama heimild, bls. 431.
71 Alice Domurat Dreger, Hermaphrodites and the Medical Invention of Sex, Cambridge
MA: Harvard University Press 1998, bls. 26.
72 Sama heimild, bls. 147–150.
73 Julia Kristeva, Powers of Horror: An Essay in Abjection, new York: Columbia Uni-
versity Press, 1982, bls. 13–15.
EITT, TVö, ÞRJÚ KYn