Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Síða 57
56
leitast við að varpa ljósi á það hvernig þessar hræringar hafa mótað viðhorf
í samtímanum, ekki síst til módernisma í málverki. Þess verður freistað
að rekja saman þræði í fræðiskrifum sem fjalla um tæknilega útfærslu í
málverki, og þá einkum í módernískum landslags- og náttúrutengdum
verkum. Vikið verður að umræðu nokkurra höfunda sem fjallað hafa um
sjónarhorn viðtakandans og mögulegar leiðir hans að málverkinu sem
athafnasvæði í tíma og rúmi. Sérstaklega verður litið til skrifa Charles
Harrisons listfræðings og gerð grein fyrir umfjöllun hans og viðhorfum
til módernisma í myndlist, og tengsla milli módernisma og nútímalegra
landslagsmálverka. ég tel umræðu hans mjög gagnlega í greiningu á lands-
lags- og náttúrutengdum málverkum, m.a. í íslensku samhengi, en íslensk
nútímalist er afar mótuð af nærveru náttúrunnar. Harrison og fleiri höf-
undar sem hér er vísað til eiga það sameiginlegt að líta, hver með sínum
hætti, til hinna malerísku eiginleika sem merkingarríkra þátta í viðtökum
málverka. Í myndrænni tækni – sem felur í sér kvika sköpun, skynjun,
hreyfingu og nautn – er að þeirra mati jafnframt fólgin virkni og merking
sem liggur einnig handan tæknilegra eiginleika verkanna og vísar til ver-
undar í raunheiminum. Þá verður túlkun Thors Vilhjálmssonar skálds á
verkum Svavars Guðnasonar greind með hliðsjón af þessari umræðu, og
þannig leitast við að setja hana í samhengi við móderníska arfleifð hér á
landi, með áherslu á landslagstjáningu í málverki. Hugmyndin er að efna
til samtals við slíka arfleifð og horfa þá til merkingarþátta sem tengjast
ferlum náttúrunnar og líkamans.
Hönd málarans
Í bók sinni Vision and Painting ræðir norman Bryson listfræðingur hvernig
vestrænt, frásagnarlegt málverk einkennist af viðleitni til að breiða yfir
sjálft málunarferlið og þar með „hönd málarans“ eða þá líkamlegu vinnu
og tíma sem býr í gerð verka. Þessa viðleitni megi rekja til endurreisn-
artímans og uppgötvunar fjarvíddarlögmála sem gera ráð fyrir að mynd sé
búin til fyrir ákveðið sjónarhorn og staðsetningu áhorfandans.2 Málningin
sé meðhöndluð á þann hátt að hún feli slóð sína, ef svo má segja, og athygl-
inni er beint frá yfirborði málverksins og inn í blekkingarheim mynd-
arinnar. Markmiðið sé raunar að festa augnaráð áhorfandans á þann hátt
að hann meðtaki undir eins ímyndina, er sett hefur verið fram, sem tæra og
2 norman Bryson, Vision and Painting. The Logic of the Gaze, new Haven og London:
Yale University Press, 1983, sjá umræðu bls. 87–131.
AnnA JóHAnnSdóttiR