Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Síða 65
64
eftirlíkingu í anda akademísks natúralisma fóru hinir nútímalegu málarar,
sem oft voru staddir úti í náttúrunni, að draga fram blekkingareigindi mál-
verka sinna. Málverk þeirra, og þá sérstaklega sýnileiki pensiltækninnar,
endurspegla þannig gagnrýna sjálfsvitund um veruleika verkanna sem list-
ar og listrænnar tjáningar. Þarna er komin hugmyndin um „listina fyrir
listina“, grundvallarhugmynd módernismans.22
Í umfjöllun sinni leggur Harrison til grundvallar aðgreiningu milli
áhrifa (e. effects) í málverki og áhrifavalds (e. effectiveness) mynda en þau eiga
jafnframt í innbyrðis díalektísku sambandi (205, skáletranir úr frumtexta).
Áhrif í málverki fela í sér vald sem tengist því að myndgera (e. power of
picturing) meðan áhrifavaldið er fólgið í því sem kalla mætti myndgervingu
valds (e. picturing of power). Í akademískum natúralisma renna þessir þættir
saman og sem dæmi um samruna áhrifa og áhrifavalds í 18. aldar nat-
úralísku málverki, sem byggir á hefðbundnum venslum fígúra og grunns,
ræðir Harrison verk breska málarans Arthurs Devis, James-fjölskyldan (The
James Family) frá 1751 (213). Landslagið í bakgrunni myndarinnar gegnir
því hlutverki að styðja áhrifavald verksins sem myndar (af tilteknu við-
fangsefni), áhrifavald sem lýtur að „natúralíseringu“ (líkt og um eðlilegt
eða náttúrulegt ástand sé að ræða) þjóðfélagslegs stigveldis og þjónar hags-
munum enskrar landeigendastéttar. Málaratæknin í verkinu er fáguð og
í samræmi við akademísk markmið raunsæislegrar framsetningar. James-
fjölskyldan er því dæmi um hvernig málverk (það hvernig myndin er gerð,
eða yfirborð hennar) rennur saman við mynd (það sem myndin sýnir, eða
viðfangsefni) í eina heild sem hefur leiðbeinandi gildi, eða hagnýtan til-
gang, þ.e. segir áhorfandanum hvernig hann eigi að skilja myndina – og
leitast jafnframt með áhrifavaldi sínu við að læsa hann í ástandi augnaráðs-
ins, handan tíma og rúms.
Sú vitundar- og viðhorfsbreyting sem kennd er við módernisma tengist
fráhvarfi frá virkni sem telst dæmigerð fyrir þann akademíska natúralisma
sem leiddi af samruna áhrifa og áhrifavalds í ætt við það sem miðlað er í
James-fjölskyldunni. Slíkt fráhvarf tengdist vaxandi andstöðu listamanna
22 Slagorðið „listin fyrir listina“ á uppruna sinn í Frakklandi á 19. öld og leggur
áherslu á sjálfstæði listarinnar frá félagspólitískum hagsmunum og gildum (og
þróaðist á 20. öld út í kenningar um sjálfræði módernískrar listar). Eins og Jonathan
Harris bendir á var hins vegar fólgið pólitískt andóf í hugmyndinni um listina fyrir
listana, andóf gegn spilltu þjóðfélagi, listakademíunni og hinum opinbera franska
salón sem var sýningarvettvangur fyrir viðurkennda list. Jonathan Harris, Art
History. The Key Concepts, bls. 22–23.
AnnA JóHAnnSdóttiR