Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Side 68
67
forgang í verkum þeirra: að gera skil samræðu við heiminn eða skapa sam-
ræmi í málverki (207–208).26 Í umfjöllun sinni um Hljómfall haustsins leitar
Harrison að merkingu sem fólgin er í skynjun á nærveru listamannsins
sem sérstæð málunartækni Pollocks kveikir. Merkingin er m.ö.o. fólgin í
áhrifum (málverksins) sem vekja í áhorfandanum endurvarp af kenndum
listamannsins og verund hans í heiminum. Svo er að sjá sem hin velheppn-
uðu verk Pollocks – í þeim skilningi að þau hafa áhrif á áhorfandann – leiði
í ljós vandann sem tengist módernískri kenningarsmíð Greenbergs, og
þar með túlkun á módernisma sem nær lengra aftur (og hugsanlega einn-
ig fram) í tíma. Að mati Harrisons hefur áhersla á sjálfræði listarinnar, á
kostnað þess að taka tillit til forsendna fyrir viðtökum listarinnar, skap-
að tilfinningu fyrir þverrandi áhrifum málverksins – með því að horft er
framhjá því hvernig það megnar að orka á viðtakendur – til að túlka heim-
inn og höfða til breiðs hóps áhorfenda. Vandinn í kenningum Greenbergs
er því fólginn í afneitun hans á áhrifavaldi verksins sem myndar er skír-
skotar til raunveruleikans. Að mati Harrisons dregur þessi skilningur jafn-
framt úr „valdi myndgervingarinnar“ og þrengir ennfremur skilning okkar
á áhrifum verksins (209). Harrison virðist eiga hér við að séu málverk
túlkuð með hliðsjón af kenningum Greenbergs, geti þau einfaldlega lokast
inni í sjálfum sér (og e.t.v. dagað uppi inni á stofnun sem listsöguleg tákn).
Hvað snertir áhrifamátt verka Pollocks, þá spornar ríkuleg samhengisvís-
un þeirra hins vegar gegn slíkri túlkun og þau áttu þannig þátt í að afhjúpa
þversagnir í kenningum Greenbergs og fylgismanna hans.27
26 Áhersla impressjónistanna á áhrif og hvernig málað er fremur en hvað er málað, birt-
ist með skýrum hætti í nafngiftum verka eftir Camille Pissarro og Claude Monet:
effet de neige, effet de brouillard, effet de soleil o.s.frv. Verk þeirra snúast að mati Harr-
isons um að kalla fram í áhorfandanum – í gegnum pensiltæknina – ákveðin áhrif
sem heimur náttúrunnar (snjór, þoka eða sól) hafði á þeirra eigin skynjun (207).
Hugtakið effet (sbr. e. effect) hafi verið notað til að gefa til kynna þá fyrirætlun að
fanga andrúmsloft náttúrunnar og að búa til málverk sem var tæknilega samkvæmt
sjálfu sér. Tilgangurinn með nafngiftinni „effet“ hafi tengst því að ekki var alveg
ljóst hvort hafði forgang.
27 Harrison dregur fram hvernig Greenberg tilgreinir þessa þversögn sjálfur þegar
hann segir að þróun í frönsku málverki frá Courbet til Cézanne hafi leitt það fram
á brún afstraksjónar einmitt vegna viðleitni til að þýða sjónreynslu af æ meiri trún-
aði [við veruleikann]. Í umsögn um verk Cézanne ræði Greenberg um titring sem
skapaðist milli málaðs yfirborðs myndarinnar og „inntaks“ á bak við hana. Með því
að hafa viljað bjarga vestrænni hefð úr viðjum skuldbindingar við hið þrívíða, bæði
frá mistri impressjónistanna og skreyti Gauguins, hafi sú viðleitni, skömmu eftir lát
hans, leitt til tilurðar málverks (þ.e. analýtísks kúbisma) sem var flatari en nokkuð
sem vestrið hafði augum litið síðan á miðöldum (sbr. grein Greenbergs „Cézanne“
STAðInn Að VERKI