Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 69
68
Í samhengi landslagsmálunar 19. aldar hljómar það vissulega þversagn-
arkennt að nánari athugun og innlifun í náttúruna leiði af sér meiri fjar-
lægð frá henni og ofuráherslu á aftengda fagurfræði. Í greiningu sinni
staðsetur Harrison átökin í díalektískri spennuafstöðu milli málverks og
myndar í landslagsmálverkum 19. aldar. Hnignun greinarinnar í 20. aldar
kenningum um módernisma varpar því ljósi á rót vandans: hvernig getur
módernískt málverk orkað á áhorfandann sem landslagstúlkun þegar skír-
skotun til náttúruheimsins er ekki talin skipta máli í verkinu? Slíkar spurn-
ingar varpa einnig ljósi á viðvarandi átök varðandi skilgreiningar á upphafi
(og meintum endalokum) módernismans í myndlist þótt flestar nýlegar
yfirlitsbækur skilgreini tímabil módernismans frá um 1860 til 1960.28 Að
mati Harrisons geta spurningar sem tengjast meintu „brotthvarfi“ lands-
lagsrýmis í módernískum verkum aukið skilning á túlkunarvanda í við-
horfum til módernisma, og raunar einnig hvað varðar hugmyndir um póst-
módernisma (211). Samtímalistin (þ.e. eftir 1960) er gjarnan tengd skeiði
sem skilgreina má sem „eftir módernismann“ eða „í ljósi módernismans“.
Þá er ýmist gert ráð fyrir að módernisma sé einfaldlega lokið og hugtakið
notað fyrst og fremst til að gefa til kynna sögulegt tímabil, eða að samtím-
inn sé enn mótaður af viðbrögðum við módernisma eins og Greenberg
hefur skilgreint hann.29 Ástand „í ljósi módernismans“ virðist því benda til
þess að ýmsar spurningar og álitamál sem módernískir listamenn glímdu
við eigi enn erindi við samtímann.
(1951), í Art and Culture (Boston, 1961), 52–53 og 57). Charles Harrison, „The
Effects of Landscape“, bls. 209.
28 James Elkins gerir grein fyrir fimm kenningum módernismans í myndlist: 1) að
upphaf módernisma megi rekja til málverka á tímabili háendurreisnar, 2) að mód-
ernisminn eigi rætur í síðustu áratugum 18. aldarinnar, 3) að módernisminn hefjist
með Edouard Manet og Charles Baudelaire, 4) að fráhvarf Cézannes og Picassos
(eða síðimpressjónismi og kúbismi) frá hefðbundinni framsetningu á rými skv. fjar-
víddarlögmálum marki upphaf módernismans, og 5) módernisminn er nátengdur
afstrakt-expressjónisma og afstraksjón og kenningum Greenbergs. James Elkins:
Master Narratives and Their Discontents, new York: Routledge, 2005, bls. 37–81.
29 Diarmuid Costello veltir t.d. upp þeirri spurningu hvort lunginn úr póstmódern-
ískri listfræði sé beinlínis í gíslingu þess hugmyndafræðilega ramma sem hún hefur
andmælt hvað harðast, þ.e. Clements Greenbergs. Diarmuid Costello og Jonathan
Vickery (ritstj.), Art. Key Contemporary Thinkers, oxford og new York: Berg 2007,
bls. 77.
AnnA JóHAnnSdóttiR