Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Side 81
80
ara“.49 Skáldskapartexti Thors býr ljóslega yfir eigin sjálf-sprottnu áhrif-
um. Formrænn lesturinn tekur á sig ævintýralegar myndir og hljómfall
tungumálsins endurspeglar sveifluna í verkunum:
Svavari er lagið að binda ólíka liti, spenna yfir og undir og tempra
átökin litanna þannig að ósætti þeirra liti og þjóni þeirri sátt sem
allir þættir myndarinnar stefna að. Víða eru stemmur magnaðar
með þjótandi fleygformum sem stundum skarast og ýfast og lita-
surgur skrúfast upp í sveig sem sveiflast í yddan fleyg og typpist með
öðrum turnum, tendrast við bjúgform sem taka þeim úfum fagnandi
með hljómi sinna mjúku djúpa.50
Skynjun Thors lýtur að óræðri, eða dulinni merkingu sem býr undir yfir-
borðinu. Sú merking er í huga Thors tengd náttúrureynslu og af orðum
Svavars sjálfs að dæma er það og raunin.51 nautn áhorfandans Thors felst
í því að njóta þess hvernig málað er um leið og hann ber kennsl á „við-
fangsefni“ sem hann tengir við náttúruna. náttúran er þó ekki túlkuð sem
„mynd“ í natúralískum skilningi, heldur sem lifandi og síkvikt umhverfi
sem túlkandinn er hluti af. Módernísk túlkun Svavars, sem endurspeglast
í lestri Thors, virðist því eiga ýmislegt sameiginlegt með náttúrutúlkun
impressjónistanna, sem að mati Malcolm Andrews lýsa gagnvirku sam-
bandi listamanns og náttúruheims sem riðlar hugmyndum um „lands-
lag“ og grefur undan skilningi á því sem fastmótaðri niðurröðun náttúru-
forma sem listamaðurinn (sem meðvitaður „áhorfandi“) skipuleggur úr
49 Thor Vilhjálmsson, Svavar Guðnason, bls. 59.
50 Thor Vilhjálmsson, Svavar Guðnason, bls. 40–41.
51 Aðspurður í viðtali, sem tekið var í tilefni af opnun sýningar hans í Listamannaskál-
anum 1945, hvort hann „hafi nokkuð frá Íslandi í list sinni“, svarar Svavar: „Já, í
raun og veru stend jeg í nánu sambandi við íslenska náttúru, bæði í litum og formi.
Jeg vil engan veginn skáganga náttúruna og er það af innri þörf“, sjá: „Svavar
Guðnason opnar listsýningu“, Morgunblaðið 19. ágúst 1945, bls. 5. Í öðru viðtali
segir hann ennfremur: „Menn mega því ekki taka nöfnin, sem þeim hafa verið gefin
of bókstaflega. Með þeim er aðeins gerð tilraun til að fá fólk til að tengja eitthvað
ákveðið við [málverkin]. Tökum til dæmis myndina Íslandslag. Ástæðan til þess
að ég gaf henni þetta nafn er sú að ég vildi fá fólk til að tengja við hana ákveðnar
tilfinningar. Fyrir mér er hún tjáning íslenzkrar náttúru, íslenzkra lita, íslenzkra
forma – stemning íslenzkra landslagslita“, sjá: „Listin sprettur af lífinu sjálfu en
ekki neinni fagurfræði. Viðtal við Svavar Guðnason listmálara,“ Þjóðviljinn 18. ágúst
1945, bls. 4.
AnnA JóHAnnSdóttiR