Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 96
95
pirring og óhamingju er skýrður með því að hún giftist aldrei. Eða þá að
hún hafi verið skapgóð, góðlynd manneskja sem aldrei upplifði neitt átak-
anlegt og því hafi heimur hennar verið lítill. Hugmyndirnar um afmarkað
sögusvið hennar og viðburðasnautt líf eru síðan í hrópandi mótsögn við þá
tilhneigingu margra lesenda að segja hana hafa átt í leynilegum og tilfinn-
ingaþrungnum ástarsamböndum sem hún hafi aldrei jafnað sig á. En hinar
fjölmörgu skálduðu ævisögur sem skrifaðar hafa verið um huldu ástina í
lífi Austen varpa ljósi á það. Þó hafa allar þessar mótsagnakenndu lýsingar
orðið einkenni á höfundinum, en fáir höfundar hafa jafn ítrekað orðið
einfölduninni að bráð.28
Hversu grimm var Jane Austen?
Á nítjándu öld þótti lengi vel ókvenlegt að skrifa.29 Kannski hefur fjöl-
skylda Jane Austen viljað leggja áherslu á kvenleika skáldkonunnar með
því að milda andlitsdrætti hennar, svo að ekki færi sú hugmynd á flakk að
Austen hefði verið metnaðarfullt atvinnuskáld. James Austen, bróðir Jane,
lagði áherslu á kvenlegt eðli hennar í kvæði sem hann orti um hana. Hún
hafi verið hljóðlát og ljúf og ekki gleymt skyldum sínum á heimilinu.30
Þessi áhersla á skáldkonuna sem dæmigerða og þægilega konu hefur
lengi loðað við hana og hana má enn sjá í umræðu um verk hennar sem
hafa verið gagnrýnd fyrir að draga upp mynd af lokuðum og meinlitlum
kvennaheimi, í stað þess t.d. að takast á við stærri og veigameiri hluti,
eins og samfélagsólgu napóleonsáranna. Þannig segir Frederic Harrison
að hún hafi verið „frekar hjartalaus bölsýnismanneskja“ sem „setti saman
háðsádeilur um nágranna sína á meðan þjóðhöfðingjar rifu heiminn í tætl-
ur og sendu milljónir manna í gröfina“.31 Christopher Kent bendir á að
28 Um þetta fjalla ég í doktorsritgerð minni, „ég hef lesið margar Jönur. Höf-
undarvirkni Jane Austen í þremur kvennagreinum samtímans“, sem lögð hefur
verið fram til varnar við íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs Háskóla
Íslands.
29 Um þetta má t.d. lesa í þekktu yfirlitsriti Gilbert og Gubar, The Mad Woman in the
Attic, en fyrsti kafli þess, „The Queen’s Looking Glass: Female Creativity, Male
Images of Women, and the Metaphor of Literary Paternity“, snýst m.a. um stöðu
skáldkvenna í karllægri fagurfræði nítjándu aldar. Sjá Sandra M. Gilbert og Susan
Gubar, The Mad Woman in the Attic: The Woman Writer and the Nineteenth-Century
Literary Imagination, London og new Haven, CT: Yale University Press, 2000
[1979] (2. útg.) bls. 3–44.
30 Emily Auerbach, Searching for Jane Austen, bls. 7.
31 Frederic Harrison í bréfi til Thomas Hardy. Birtist í grein Christopher Kent „Le-
arning History with, and from, Jane Austen“, Jane Austen’s Beginnings: The Juvenilia
Líkami Jane • Ástin og ímyndin