Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Side 123
122
mynda hughyggjunnar um andlegar hliðar ástarinnar.40 Hin viðtekna hefð
er að fjalla um ástarlíf kvenna í rómantísku ljósi en í Straumrofi er kynferð-
ishliðin dregin skýrt fram.
Í greininni „Réttar og rangar kynferðisskoðanir“ eftir Friðrik Klaveness
sem birtist í Heimilisvininum 1906 er að finna hjónalífsleiðbeiningar sem
margítreka að frumkvæðið að kynlífi sé ávallt eiginmannsins og að atferlið
sem slíkt tengist kenndum karlsins fremur en konunnar. Því er þó hald-
ið til haga að ástaratlot karlmannsins kunni að lokum að vekja ákveðnar
tilfinningar hjá konunni en þær eru þó ekki kynferðislegar, eiga ekkert
skylt við „nautn“ með öðrum orðum, heldur lýsa þær sér sem þakklæti
yfir þeirri „gjöf“ að karlmaðurinn tjái væntumþykju sína líkamlega.41
Um margt er kynfræðslugreinin dæmigerð fyrir umræðuna um kynhvöt
kvenna á þessum tíma og þótt um sé að ræða rit sem út kom nokkuð á
undan Straumrofi breyttist ekki mikið í millitíðinni. Ekki er nóg með að
kynverund kvenna hafi lengst af verið feimnismál heldur var viðbúið að
tilvist kynferðislegra langana hjá konum væri hafnað með öllu líkt og sjá
má í ritgerð Friðriks eða þá að úr þeim væri dregið.42 Sagnfræðingurinn
Anne Higonnett hefur fjallað um hversu vandasamt það var að birta kyn-
nautn kvenna með myndrænum hætti í fjölmiðlum og menningarafurðum
á nítjándu öld og framanaf þeirri tuttugustu og bendir í því sambandi á
að myndsmiðir hafi þurft að kortleggja ríkjandi gildismat og meta hversu
langt mátti ganga í framsetningu á „vafasömu“ erótísku efni. niðurstaðan
var einmitt sú að aldrei mátti sýna merki um kynhvöt eða nautn kvennanna
sem sátu fyrir, slíkt taldist „afskræming“ þeirra „innbyggðu náttúrlegu
hneigða“ sem prýða fyrirmyndarkonuna og þessum viðmiðum reyndist
óskynsamlegt að ögra.43
Móðurhlutverkið var vitanlega í forgrunni þegar rætt var um inn-
40 Vikið er að þessu atriði í leikdómi í Vísi en þar segir að parið sé „heldur ánæg[t] yfir
því, sem fyrir þau hefir komið um nóttina, sem nú er engum blöðum um að fletta
hvað er“ og í framhaldinu er nóttinni líkt við „brúðkaupsnótt“. „G.J.“, „Halldór
Kiljan Laxness: Straumrof“, bls. 3.
41 Friðrik Klaveness, „Réttar og rangar kynferðisskoðanir“, Heimilisvinurinn, 1906,
bls. 27–48, hér bls. 35.
42 „Feimni“ ber í þessu samhengi að skilja sem hugmyndafræðilegt stjórntæki sem
lokar fyrir umræðu, spurningar og gagnrýni.
43 Anne Higonnett, „Representations of Women“, A History of Women in the West IV.
Emerging Feminism from Revolution to World War, ritstj. G. Fraisse og M. Perrot,
Cambridge og London: The Belknap Press of Harvard University Press, 1993, bls.
306–318, hér bls. 316.
BJöRn ÞóR vilHJálmSSon