Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 151
150
Eftir því sem ókyrrð Dags verður skýrari og í ljós kemur að hann kýs
ekki aðeins að snúa aftur til „siðmenningarinnar“ heldur hafi hann í hyggju
að halda áfram sambandinu við öldu er sem hyldýpi opnist fyrir Gæu.
Hún er nú í þeirri stöðu að keppa við dóttur sína um ástmann. Sú æva-
forna aðferð að greina á milli kvenna á grundvelli kynferðislegrar reynslu
þeirra er dregin fram strax í upphafi deilnanna. Alda er þannig í huga Dags
„saklaust og elskulegt barn“ meðan „öll gögn og gæði hafa verið höfð af“
Gæu um nóttina, eins og hún orðar það sjálf.129 „Unnustan [skal] vera
hrein, hún dæmist til að vera hrein. Björt mey og hrein!“ hreytir Gæa út
úr sér, en orðalagið „dæmist“ er þrungið merkingu í þessu samhengi.130
Í hönd fer mögnuð stígandi þar sem kynferðisleg hlið persónuleika Gæu
birtist sífellt skýrar og viðbrögð Dags fylgja hverri afhjúpuninni eftir skref
fyrir skref; ánægjan með unað næturinnar er horfin um leið og áhyggjur af
tilfinningahitanum sem stafar af Gæu hafa tekið við. Þegar hún loks tjáir
hvernig innra líf hennar ólgar af kynferðislegum hvötum og hugsunum
hafnar Dagur henni með öllu og fyllist viðbjóði, „Blygðunarlausa kven-
snift! Þú ættir skilið að vera húðstrýkt!“, hrópar hann og hrindir henni í
gólfið.131
Endalok leikritsins er nauðsynlegt að skoða í ljósi framangreindra hug-
mynda um bælingu á kynverund kvenna og óbærileika járnbúrsins. Gæa
gerir sér grein fyrir því hversu afdrifaríkar afleiðingar „hliðarspor“ hennar
muni hafa fyrir hana; ögunarkerfin eru virkari gagnvart konum en körlum
eins og sést á því að eftir að hafa fordæmt Gæu hyggst Dagur snúa aftur til
fyrri áætlana um að giftast öldu. Það sem mestu máli skiptir er að sú upp-
reisn, sem fólgin er í því að Gæa gefi sig kynferðislegum þrám á vald, færir
henni nýtt sjónarhorn á eigið líf. Það er líkt og slikju hugmyndafræðilegrar
vanabindingar hafi verið svipt í burtu og ekki verður snúið aftur til ósjálf-
stæðis og hlutgervingar innan efnahagsformgerðar þar sem eiginkonan
verður að nokkurs konar „húsgagni húsgagnanna“.
Raunar leysist borgaralegur veruleiki upp í lok leikritsins. „Faðirinn“ –
táknræn mynd valdakerfis samfélagsins – er fallinn frá og um stundarsakir
mátti eygja glufu undan oki feðraveldisins. Það reynist tálsýn. Hinn fallni
patríarki skírskotar frekar til þess hvernig Gæa hefur brennt allar brýr
að baki sér. Alda var Gæu afskaplega mikilvæg, og hún lagði sig fram um
að undirbúa dóttur sína fyrir samfélagslega hlutverkið sem beið hennar.
129 Sama rit, bls. 78, 75.
130 Sama rit, bls. 78.
131 Sama rit, bls. 83.
BJöRn ÞóR vilHJálmSSon