Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 155
154
sér móðurmálið. Í framhaldi af því verður minnt á þá staðreynd að þeir
sem sagðir eru tala sama málið tala það sjaldnast alveg eins, þ.e. í öllum
málum finnast ýmiss konar tilbrigði, t.d. í framburði, beygingum, setn-
ingagerð og jafnvel merkingu orða. Síðan verða nefnd dæmi um aðferðir
sem eiga að stuðla að málvernd en gera það ekki, eða a.m.k. aðeins að mjög
takmörkuðu leyti. Um leið verður útskýrt af hverju þessar aðferðir eru
dæmdar til að mistakast í flestum tilvikum. Í lokin verður svo bent á aðra
leið til þess að stuðla að varðveislu þess samhengis sem áður var nefnt og
útskýrt af hverju hún er í betra samræmi við það sem vitað er um eðli mál-
töku og málkunnáttu. Þar verður því haldið fram að brýnast sé að þroska
„máleyra“ barna á mótunarskeiði, en þetta orð er valið vegna skyldleika
fyrirbærisins við svokallað brageyra. Um leið verður bent á að þessi aðferð
gæti líka skilað betri árangri í PISA-könnunum framtíðarinnar.
2. Máltaka og reglur
orðið máltaka hefur um nokkurt skeið verið notað um það ferli þegar börn
ná tökum á móðurmálinu. Óhætt mun að fullyrða að þekkingu og skilningi
málfræðinga, sálfræðinga og sálmálfræðinga (málsálfræðinga) á þessu ferli
hefur fleygt fram á síðustu áratugum. Það á bæði við um almennan skiln-
ing á fyrirbærinu og þekkingu á því hvernig börn ná tökum á íslensku.3
Hér er hvorki rúm né ástæða til að gefa almennt yfirlit yfir þetta efni en
það er nauðsynlegt að nefna tvö atriði:4
3 Hér má t.d. benda á yfirlitsgrein Sigríðar Sigurjónsdóttur „Máltaka barna og með-
fæddur málhæfileiki“, Chomsky –Mál, sál og samfélag, ritstjórar Höskuldur Þráinsson
og Matthew Whelpton, Reykjavík: Hugvísindastofnun og Háskólaútgáfan, 2013,
bls. 107–127. Sigríður vísar í ýmis rit um þetta efni.
4 Ritrýnir bendir réttilega á að í þessum kafla er farið býsna fljótt yfir sögu og í raun
væri ástæða til að lýsa eðli máltökunnar betur. Hér er t.d. ekkert fjallað um þá
staðreynd að börn byggja málkerfi sitt upp stig af stigi á reglubundinn hátt á mál-
tökuskeiðinu og lítið er rætt um áhrif tíðni og regluleika í máláreitinu. Þrátt fyrir
þessa ábendingu var ákveðið að lengja þennan kafla ekki með nánari útskýringum
og benda frekar á aðgengilegt lesefni þar sem fræðast má um efnið, svo sem grein
Sigríðar Sigurjónsdóttur „Máltaka barna og meðfæddur málhæfileiki“ og kaflann
„Máltaka og setningafræði“ eftir sama höfund í bókinni Setningar –Handbók um
setningafræði, ritstjóri og aðalhöfundur Höskuldur Þráinsson, meðhöfundar Eiríkur
Rögnvaldsson, Jóhannes Gísli Jónsson, Sigríður Magnúsdóttir, Sigríður Sigurjóns-
dóttir og Þórunn Blöndal, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2005, bls. 636–655. Á
báðum stöðum er vísað í fjölmörg rit um máltöku barna og eðli hennar.
HöSkulduR ÞRáinSSon