Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 176
175
nemendur í formlegri málnotkun eða hvort um er að ræða tilraunir til að
hafa áhrif á daglega eða hversdagslega málnotkun nemendanna. Breski
félagsmálfræðingurinn Peter Trudgill gerir ágæta grein fyrir þessu í lítilli
bók um mál og skóla sem hann skrifaði fyrir alllöngu.35 Þar heldur hann
því fram að það sé í raun ekki hægt að „skipta um mál“ í skólanemendum
(þótt sérstaklega áhugasamir einstaklingar geti að einhverju marki skipt
um mál í sjálfum sér ef þeir sjá sérstaka ástæðu til þess), en það sé auðvitað
hægt að bæta ýmsu við málkunnáttu nemenda eða málfærni. Mikilvægur
þáttur í þeirri málþjálfun sem nemendur fá í skóla er að ná tökum á því til-
tölulega formlega málsniði sem oft er við hæfi í rituðu máli og menn geta
líka þurft að bregða fyrir sig í töluðu máli. Sumt af því sem við notum í
daglegu máli þykir ekki eiga við í formlegu málsniði og það er mikilvægt
fyrir skólanemendur að fá upplýsingar um það. Þegar við erum síðan að
ganga frá rituðu máli getum við tamið okkur að laga málið að slíkri for-
skrift eða staðli, þótt það gangi yfirleitt verr þegar um talað mál er að
ræða, jafnvel þegar við setjum okkur í tiltölulega formlegar stellingar (sbr.
dæmið í (15a) í kafla 4.4.1).
En hvað er það þá sem skiptir mestu máli ef við viljum stuðla að því
að varðveita þetta margnefnda samhengi? ég hef víða ýjað að því hér á
undan að málnotkun okkar ráðist af þeirri máltilfinningu sem við höfum.
ég hef t.d. haldið því fram að það sé til lítils að reyna að stýra fallnotkun
málnotenda „með handafli“, ef svo má segja, í þeirri von að hún verði í
samræmi við það sem hefur verið talið hefðbundið. Hún verður það ekki í
daglegu tali þeirra nema máltilfinning þeirra sé á þann veg – og það sama
á við um allt annað í máli: Það hvernig við tölum og hvað okkur finnst
eðlilegt ræðst af máltilfinningu okkar. Þessi máltilfinning byrjar að mót-
ast á máltökuskeiði og getur haldið áfram að þróast frameftir aldri, þótt
fræðimenn greini á um að hvaða marki það geti gerst og hversu lengi. Það
fer þó reyndar nokkuð eftir því hvaða þætti máltilfinningarinnar við erum
að hugsa um.36 En ef við hugsum um börn á máltökuskeiði og á grunn-
skólaaldri er varla umdeilt að mál þeirra mótast að verulegu leyti af því
hvað fyrir þeim er haft, og þá bæði í „ræðu og riti“, ef svo má segja. ég
kem betur að því á eftir.
35 Peter Trudgill, Accent, Dialect and the School, London: Edward Arnold, 1975.
36 Sjá umræðu um þetta hjá Höskuldi Þráinssyni, „Hvernig öðlast menn máltilfinn-
ingu og hvaða máli skiptir hún?“, Lestrarbókin okkar. Greinasafn um lestur og læsi,
ritstj. Heimir Pálsson, Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands og
Íslenska lestrarfélagið, 2000, bls. 131–142.
MÁLVERnD, MÁLTAKA, MÁLEYRA – oG PISA-KönnUnIn