Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 185
184
tíðum ná hugmyndir hernaðarhyggju ráðandi stöðu innan samfélaga og
verða svo ‘eðlilegur’ hluti af hversdagslegri tilveru að lítt eða ekki er eftir
þeim tekið. Textinn sem vísað er til hér að ofan er gott dæmi um það.
Í þessari grein verður fjallað um hernaðarhyggju, hervæðingu og hug-
myndir um karlmennsku og stuðst við femínískt sjónarhorn og skilgrein-
ingar sem meðal annars tengja hernaðarhyggju við hugmyndir um feðra-
veldi og karllæg yfirráð. Sem dæmi um staðbundna birtingarmynd þessara
þátta er sjónum beint að stofnun Íslensku friðargæslunnar (ICRU) árið
2001 og fyrstu starfsárum hennar sem augljóslega tóku mið af hernaðar-
legri hugmyndafræði sem birtist meðal annars í nánu samstarfi við hern-
aðarstofnanir á borð við Atlantshafsbandalagið (nATo) og International
Security Assistance Force (ISAF).6 Þannig var starfsfólk gæslunnar ekki
bara staðsett innan hernaðarlegrar formgerðar heldur vann einnig sam-
kvæmt hugmyndafræði, viðmiðum og reglum sem þar gilda.7 Stofnun
friðargæslunnar og starfsemi hennar fór saman við uppgangsárin fram
að hruni 2008 og val og staðsetning stærstu verkefna gæslunnar á fyrstu
starfsárum hennar bera ótvírætt vitni um þann tíðaranda og þau viðhorf
sem þá ríktu og einkenndust af bjartsýni og áræðni.
Í umfjölluninni er stuðst við gögn úr nýlegri rannsókn þar sem ramminn
var Íslenska friðargæslan, hugmyndafræðileg tilurð hennar og staðsetning
í orðræðu yfirvalda sem og tengsl þeirrar orðræðu við alþjóðlega og póli-
tíska orðræðu um friðargæslu. Þó svo að rannsóknin hafi einkum beinst að
því að skoða kynjaða sjálfsmyndarsköpun afmarkaðs hóps íslenskra karl-
manna í samspili við það menningarlega og félagslega rými sem hann var
í þá er í greininni hvorki fjallað um gæsluliðana sjálfa, viðhorf þeirra og
upplifun af Íslensku friðargæslunni né sýn þeirra á útrásarárin.8
6 Helga Björnsdóttir, „Give me some men who are stout-hearted men, who will fight,
for the right they adore“: Negotiating gender and identity in Icelandic peacekeeping,
Reykjavík: Háskóli Íslands, 2011.
7 Þó svo að þátttaka og tengsl við hernaðarleg verkefni hafi einkennt fyrstu starfsárin
þá er vert að undirstrika að Íslenska friðargæslan átti allt frá byrjun í samstarfi við
ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, svo sem UnIFEM, UnICEF og oCHA
og kostaði stöður innan þeirra á svæðum eins og á Balkanskaga, Súdan og víðar.
8 Í rannsókninni var rætt við friðargæsluliða sem starfað höfðu í einu eða fleiri verk-
efnum á vegum Íslensku friðargæslunnar í Kósóvó, Afganistan og/eða Sri-Lanka.
HelgA BJöRnSdóttiR