Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 206
205
edward H. Huijbens, gunnar Þór Jóhannesson
og Björn Þorsteinsson
Ylrækt rísómatískra sprota
Ferðaþjónusta í nýju ljósi
Inngangur
„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag“ segir í kvæðinu alkunna eftir Tómas
Guðmundsson, og orðið ferðamennska vísar til manns sem er á ferð. Síðari
hluti þess skírskotar til sjálfrar mennskunnar – og í ljósi þess má segja að
ferðalagið sé hluti mennskunnar eða tilvistar mannverunnar. Staða okkar
í veröldinni skýrist af þeim leiðum sem við veljum og má í því sambandi
benda á að Gabriel Marcel kenndi manninn við ferð og kallaði hann homo
viator.1 Ferðamennska snýst þá um mannveruna í tíma og rúmi, eða, nánar
tiltekið, um það hvernig hún hagar sér í tíma og rúmi, hvernig hún getur
ferðast um, til hvers hún gerir það, hverju hún sækist eftir, að hverju þrá
hennar beinist – og hverju hún kemst að raun um þegar hún ferðast. Með
þetta í huga má segja að hugsun um ferðamennsku komist býsna nærri því
að hugsa um sjálfa tilveruna í heiminum, veru og tíma, ferðalag okkar og
áfangastaði – í þessum heimi.
Þessi grein fjallar um verufræði ferðamennsku og hverfist um að draga
fram birtingarmyndir ferðamennsku gegnum myndlíkingar sem ætlað er
að efla skilning á henni sem samfélagsmótandi afli. Rannsóknir á ferða-
mennsku fara iðulega fram á grundvelli tvíhyggju þar sem skýrt afmark-
aðar einingar hafa skipandi hlutverk í skilningi og lýsingum á hvötum og
áhrifum ferðalaga og þróunarferlum ferðaþjónustu. Þessum einingum er
þá stillt upp sem einhverskonar andstæðum sem hafa áhrif hvor á aðra.
Dæmi um slíkar tvenndir eru ferðafólk og heimafólk, náttúra og samfélag,
markaður og menning, áfangastaður og upprunastaður, hið venjulega og
óvenjulega, framleiðandi og neytandi. Skýrasta birtingarmynd tvíhyggj-
unnar í ferðamálafræðum er hugmyndin um „kerfi ferðaþjónustunnar“
1 Gabriel Marcel, Homo Viator: Introduction to the Metaphysic of Hope, South Bend: St.
Augustine’s Press, 2010.
Ritið 2/2014, bls. 205–228