Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Qupperneq 215
214
eftir vegi á korti og engin hætta er á því að áfangastaðurinn komi á óvart,
hann er jú þar sem kortið segir til. Rýmið eins og hún vill hinsvegar sjá
það er kort þar sem við vitum ekki fyllilega hvað leynist handan horns-
ins. Vegurinn á kortinu er ekki endilega sá sami í dag og á morgun og á
ferðalögum okkar getum við hæglega keyrt út af, veginum þarf ekki að
fylgja beint af augum, hann opnar nýja möguleika. Þannig lýsir Penelope
Harvey veginum sem línunni sem markar aðgreininguna sem lýsa má með
hugtökunum rákað/samfellt.26 Vegurinn er í skilningi grannfræðinnar það
yfirborð sem tengir nýjar víddir í tíma og rými, og stendur fyrir það afl
sem beitt er til að ráka en breytir um leið möguleikum ferðalagsins.
Í rými grannfræðinnar er vegurinn því aðeins „stöðugt tilbrigði“, „stöð-
ug þróun formsins“. Í þessu rými verður eitt að öðru án þess að sjáanlegt
sé neitt rof eða brot. Vegurinn tengir saman staði en skapar þá um leið,
hann skapar nýja möguleika, líka þann að fara ekkert endilega eftir honum.
Mergð hins samfellda rýmis er órofa heild sem tekur sér myndir og form
þegar afli t.d. í formi veglagningar er beitt, rýmið er rákað, vegur gerður,
tengsl mynduð. Einingin er ein og án aðgreiningar. Það sem virðist fast
getur farið úr einu í annað, er stöðugt misjafnlega lengi eða hreint ekki
stöðugt yfirhöfuð. Spurningin er bara hvort það sem virðist stöðugt eigi
sér langan enduróm, eða viðhaldi formi sínu lengi samanborið við okkar
lífshlaup eða er ekkert annað en eitt lítið tíst (e. tweet).
Möguleikarnir sem felast í veginum og ferðalagi um hann lúta ekki
lögmálum eða röklegu samhengi áfangastaðar og uppruna.27 Það grann-
fræðilega rými sem hann á sinn þátt í að ráka í samspili við tilefni hvers
ferðalags fyrir sig kallast á við rísóm Deleuze og Guattari sem fyrir þeim er
fulltrúi (eða tákn) fyrir óhefta þrá í andstöðu við tré:
Rísómið á sér hvorki upphaf né endi, það er alltaf […] á milli hlut-
anna, millivera, intermezzo. Tréð er skyldleiki og sifjar en rísómið
er bandalag og ekkert nema bandalag. Tréð þarf á sögninni „að
vera“ að halda en rísómið helst saman með tengingunni „og… og…
og…“28
26 Penelope Harvey, „The Topological Quality of Infrastructural Relation: An Et-
hnographic Approach“, Theory, Culture & Society 4/5/2012, bls. 76–92.
27 Karen Barad, „nature’s Queer Performativity“, Kvinder, Køn og Forskning 1–2/2012,
bls. 25–53, hér bls. 45.
28 Deleuze og Guattari, „Rísóm“, bls. 57.
edWARd, gunnAR ÞóR og BJöRn