Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 216
215
Í þessari tengingu er að finna nógu mikinn kraft til að hrista til og rífa
upp með rótum sögnina „að vera“ eða formið eins og það virðist blasa við.
Þráin leitast alltaf við að umhverfa því sem virðist tréna. Hinsvegar er afli
stöðugt beitt til að hefta útrás þrárinnar og loka ferðaleiðum og ferlum út
úr hinu þaulskipulagða, reitaskipta, rákaða rými. Lokaorð kaflans um hið
rákaða og samfellda í Þúsund flekum eru í formi boðorðs: „Aldrei að trúa
því að samfellt rými nægi til þess að bjarga okkur.“29
„Hvert eruð þið að fara? Hvaðan komuð þið? Hvert viljið þið kom-
ast? Þetta eru einskis nýtar spurningar.“30 Lykilorðið er andstaða – gegn
þeim og því afli sem stöðugt reynir að ráka tímarúmið og skipta því í reiti,
koma þránni á kvíaból og mynda hjörð sem hægt er að reka í réttirnar.
Markmiðið verður að opna þránni nýjar leiðir – flóttaleiðir – en vandinn
er sá að ferðaþjónusta er birtingarmynd hins vanheilaga bandalags alls sem
rákar við auðmagnið sjálft, kapítalið, líkt og greining Deleuze og Guattari
snýst um. Ferðaþjónusta fylgir alltaf í humátt á eftir ferðamennskunni og
slær eign sinni á hina verðandi samfellu, gerir úr henni söluvöru. Hún er
aflið sem helst rákar hið samfellda rými ferðamennskunnar.
Landslag samfellt/rákað
Elizabeth Grosz segir okkur að rákaða rýmið birtist best á korti.31 Á kort-
inu eru staður og stund óhlutbundin og aðskilin skynreynslu. Andstæðan
við þetta rými kortsins er landslagið, sem Grosz skilgreinir sem það rými
sem verður til fyrir skynjun, á sér engin hnit og umbyltist og breytist
eftir því hvernig líkami okkar ferðast í gegnum það, rétt eins og hið sam-
fellda rými sem hægt er að ráka. Rýmið Ísland, landslagið sem ferðafólk
heimsækir og er uppistaða kynningar og markaðsefnis ferðaþjónustu er
þannig án festu, aðeins samfellt rými. Á hverri stundu er landið hins vegar
endurskýrt (og endurskírt) og öðlast merkingu. Kjarni málsins er ferlið,
hvert landslag á sér stað og stund og drífur áfram eigið rými og eigin tíma.
Ferlið sem mótar er grunnurinn til að skilja hvað þar er á ferðinni. Það á
upphaf sitt í hreyfingu og af/endurmyndun formsins og til að ná áttum
þurfum við að vera á yfirborðinu/mörkunum, sjá það afl sem hefur áhrif
hverju sinni og hvað er tínt til í formið sem verður landslagið þar og þá.
29 Deleuze og Guattari, Mille plateaux, bls. 625.
30 Deleuze og Guattari, „Rísóm“, bls. 57.
31 Elizabeth Grosz, Chaos, Territory, Art. Deleuze and the framing of the earth, new
York: Columbia University Press, 2008, bls. 72.
YLRÆKT RÍSÓMATÍSKRA SPRoTA