Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 227
226
og perla á festi, og er stöðugt við það að springa, verða annar, umbylta sér
en þó alltaf á sömu festi.53 Það sem við leggjum hinsvegar áherslu á er að
hver sápukúla sem þenst út gerir það í krafti tilvistarlegs úthafs, núllstigs54
sem er eins og pandórubox sem allir möguleikar spretta úr. Við höfum
nefnt jörðina sjálfa í því samhengi.
Jörðin er mergð allra möguleika og leggur á herðar okkar flóknar til-
vistarlegar spurningar. Hvernig getum við hugsað okkur sem eitt með
jörðinni?55 Ekki er rúm hér (né heldur tími – tímarúm) til að ræða þá
spurningu í þaula, en við getum svarað því hvernig hugsa megi sér íslenska
ferðaþjónustu sem eitt með þessari jörð. Hér kemur hugtakið ylrækt til
sögunnar. Komur ferðamanna til Íslands lúta ekki sömu lögmálum og
iðnaður eða námavinnsla. Ferðaþjónusta á Íslandi til framtíðar þarf að
huga að fleiru en arðsköpun og gestafjölda. Þeir sem eiga hagsmuna að
gæta í íslenskri ferðaþjónustu verða að horfa á starf sitt í víðara samhengi
umhverfisverndar og eflingar menningarverðmæta. Þar kemur til ferða-
þjónusta sem er nokkurs konar ylrækt, þar sem reynt er að halda aðstæðum
stöðugum fyrir alla gesti jafnt sem heimafólk og skapa frjósaman jarðveg
sem uppúr spretta græðlingar og rætlingar á forsendum skapandi tengsla
við ferðamenn. Raunverulegt innihald ferðamennskunnar er lífið.
Það sem þetta þýðir fyrir ferðaþjónustu er að í stað einskærra árangurs-
viðmiða sem snúa að fjölda eða veltu þarf að horfa til þess hvernig ferða-
þjónusta eflir samfélag heimafólks og með hvaða hætti. Hagsmunaaðilar
í ferðaþjónustu ættu að spyrja sig hvers kyns uppbygging eflir möguleika
samfélaga á því að verða og virkja eigið hreyfiafl, það er hvernig hægt sé
að hugsa ferðaþjónustu sem ylrækt samfélaga – þannig að lífsaflið vaxi og
þráin finni sér nýjar leiðir til sköpunar og eflingar.
53 Lash, „Deforming the Figure: Topology and the Social Imaginary“. Sjá einnig
Slavoj Žižek, Organs without Bodies. On Deleuze and Consequences, new York:
Routledge, 2004.
54 Roland Barthes, Skrifað við núllpunkt, Gauti Kristmannsson og Gunnar Harðarson
þýddu, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2003.
55 Martin Gren og Edward Huijbens, „Tourism Theory and the Earth“, Annals of
Tourism Research 1/2012, bls. 155–170.
edWARd, gunnAR ÞóR og BJöRn