Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Síða 16
15
„besta og fjölbreyttasta tímarit[i] landsmanna“ sem „sameinaði í fátíðum
mæli þá tvo meginkosti að vera í senn fróðlegt og skemmtilegt“.23
Undirtitill Iðunnar var einmitt Tímarit til skemmtunar, nytsemdar og fróð-
leiks og má segja að í honum kristallist ritstjórnarstefna Ágústs. Stefnunni
verður hvorki lýst sem framsækinni né róttækri en hún á ekki heldur skilið
að kallast íhalds- eða afturhaldssöm, enda ekki um einhlít og nauðsynleg
andstæðuvensl að ræða milli framsækni og róttækni annarsvegar og íhalds-
og afturhaldssemi hinsvegar í þessu sambandi. Þó að greina megi tiltekin
íhaldssöm einkenni þarf það ekki nauðsynlega að merkja andstöðu gegn
framsæknum eða jafnvel róttækum breytingum.
Í Iðunni birtust m.a. ljóð og lengri prósaverk eftir unga rithöfunda auk
greina sem tóku gagnrýna afstöðu til samtímans og ráðandi viðhorfa.24
Nokkrir meginþættir halda sér í efnisskiptingu þeirra árganga sem Ágúst
ritstýrði. yfirleitt er þar að finna ljóðmæli, smásögur eða brot úr skáldsög-
um, greinar um „landsmál“, mannlýsingar eða persónusögu, styttri hug-
leiðingar og ritgerðir um almenn efni, ritrýni og ritfregnir, auk greina sem
felldar voru undir flokkinn „fróðleik“. Ágúst lagði sjálfur til efni í alla þessa
flokka, jafnt frumsamið sem þýtt. Ekki er rúm til að gera tæmandi grein
fyrir öllum þeim textum sem birtust eftir Ágúst en hér verður lýst nokkr-
um meginlínum.
Bókmenntir
Þýðingar á erlendum skáldskap og umfjöllun um erlendar bókmenntir
skipa veglegan sess meðal þess efnis sem Ágúst sjálfur lagði til útgáfunnar.
Þar má jafnt finna þýðingar á ljóðum og smásögum eftir vinsæla höfunda
þess tíma sem sumir hverjir eru enn vel þekktir. Má þar á meðal nefna
Guy de Maupassant, Grazia Deledda, Helge Rode, Hermann Sudermann
og Abraham Viktor Rydberg.25 Auk þess má benda á þýðingar á verkum
23 Símon Jóh. Ágústsson, „Setti svip á íslenzkt menningarlíf á fyrri hluta 20. aldar.
Ræða er Símon Jóh. Ágústsson flutti við útför Ágústs H. Bjarnasonar prófessors í
gær“, Morgunblaðið 7. október 1952, bls. 9 og 12, bls. 9.
24 Í þessu sambandi má nefna ljóð eftir þau Theodóru Thoroddsen (1863–1954),
Davíð Stefánsson (1895–1964), Guðmund G. Hagalín (1898–1985) og Stephan
G. Stephansson (1853–1927); þýðingar á greinum eftir Georg Brandes á borð við
„Falsfriður“ og „Guðsþjónusta í musteri hugsjónanna“; „Flugur“ eftir Jón Thor-
oddsen (1898–1924); og þýðingar Eyjólfs Melan (1890–1960) á ferhendum Omars
Khayyam (1048–1131).
25 Þessi verk eru: „Ætli mig hafi dreymt það“ eftir Guy de Maupassant (1850–1893),
„Colomba“ eftir Grazia Deledda (1871–1936), „Vorið kom“ eftir Helge Rode
SKEMMTUN, FRÓÐLEIKUR OG NyTSEMD