Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Qupperneq 21
20
var að mati Ágústs „undarlega ómengað af allri venjulegri mælgi hans og
köguryrðum“ en væri þrátt fyrir það fremur lélegt. Kvæðið fjallaði á gagn-
rýninn hátt um samband kristindómsins og menningarinnar, og Ágúst
staldraði sérstaklega við hendinguna „Menning – hún er feig“. Ágúst tók
undir menningarlega bölhyggju Guðmundar í skugga heimsstyrjaldarinn-
ar: „Já vissulega er sú ytri menning (civilisation) sem við höfum trúað á og
nefnt rangnefninu „siðmenning“ feig. Hún er það skurðgoð, sem nú er að
steypast af stalli sínum.“40 Svo fór að lokum að umrætt kvæði, „Að moldu
skaltu verða“, birtist í Iðunni.41
Strax í kjölfar kvæðisins kom ritgerðin „Tvennskonar menning“ eftir
Ágúst þar sem hann lagði út af lokaorðum kvæðisins á sömu nótum og
hann hafði reifað í bréfinu til Sigurðar. Ritgerðin var í vissum skilningi
tilraun hans til að skýra grimmd og óskapnað fyrri heimsstyrjaldarinnar
í ljósi þeirrar framfarahyggju sem einkenndi heimspeki hans. Á þessum
tímapunkti verður æ ljósara að hringgengishugmyndir um gang sögunn-
ar eru yfirsterkari hugmyndinni um stigbundna framþróun í söguspeki
Ágústs. Eftir tímabil framfara tekur við hrörnun og afturför, en manns-
andinn er líkur fuglinum Fönix sem „stígur jafnan gullfjallaður uppúr ösk-
unni, stefnir til sólar og syngur nýjan söng“. Það sem stríðið leiddi í ljós,
og var jafnvel orsök þess að mati Ágústs, var að misgengi hefði verið á milli
„ytri framfara“ eða „heimsmenningar“ og „innra siðgæðis“ eða „siðmenn-
ingar“ þjóðanna. Stríðið varpaði ljósi á siðferðilega bresti mannsins og
leiddi þannig í ljós „gjaldþrot kristilegrar kirkju og allrar klerka-starfsemi“
í siðferðilegum skilningi.42 Verkefnið framundan væri tvíþætt. Annarsvegar
að gera mannlegt siðgæði að viðfangsefni vísindalegra rannsókna sem gætu
leitt í ljós í hverju „sönn innri siðmenning“ væri fólgin. Hinsvegar að þróa
nútíma sálarfræði áfram í þá átt að verða „að hreinni og beinni sáltækni
(psychoteknik)“ sem gæti fært manninum vald yfir eigin sálarlífi. Vísindi
og tækni höfðu vissulega verið misnotuð í þágu illra verka, en lausnin var
ekki fólgin í því að snúa baki við vísindum og tækni, heldur að þróa leiðir
til að beita þeim á siðrænan máta.43
40 Lbs. 10 NF, Bréfasafn Sigurðar Nordal, bréf ÁHB, 20. maí 1917.
41 Guðmundur Friðjónsson, „Að moldu skaltu verða“, Iðunn, 1–2/1917–18, ritstj.
Ágúst H. Bjarnason, bls. 64–67.
42 Ágúst H. Bjarnason, „Tvennskonar menning“, Iðunn, 1–2/1917–18, ritstj. Ágúst
H. Bjarnason, bls. 67–78, bls. 67–70.
43 Sama heimild, bls. 78.
Jakob GuðmunduR RúnaRsson