Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 25
24
þar sé að finna áhugaverðar hugmyndir um fagurfræði og hlutverk og gildi
listaverka þá er markmið greinanna fyrst og fremst að kynna listamennina
fyrir lesendunum þeim til fróðleiks og skemmtunar.
En í undirtitli Iðunnar var „nytsemd“ gert jafn hátt undir höfði og
skemmtun og fróðleik. Þegar litið er til þeirra verka sem Ágúst vakti
athygli lesenda sinna á í Ritsjá tímaritsins kemur í ljós að mörg þeirra hafa
fyrst og fremst hagnýtt og fræðilegt gildi. Þannig bendir Ágúst lesendum
Iðunnar ekki síður á nýútkomnar hagskýrslur, rit um heilsufar og sjúk-
dóma og bækur og tímarit um kennslufræði og uppeldismál en á nýjustu
bókmenntaverkin. Persónulegar áherslur og áhugamál hans skína einnig í
gegn, þar sem hann kynnir fyrir lesendum sínum rit um skógrækt, grasa-
fræði, notkun jurta og útilegu. Sem fyrr var markmið ritstjórnarstefnunnar
að hafa jákvæð áhrif á lífsmáta lesendanna á grundvelli þeirra gilda sem
Ágúst sjálfur hafði tamið sér.
Samfélagsmál
Jafnframt því að vera vettvangur menningarumræðu og miðlunar hagnýts
fróðleiks bauð Iðunn upp á tækifæri fyrir Ágúst til að blanda sér í þjóð-
málaumræðuna. Á síðum tímaritsins gat hann t.a.m. varið afstöðu sína til
bannlaganna, sem hann var andsnúinn, og svarað ásökunum um að hann
afvegaleiddi nemendur sína við Háskólann í þeim efnum.53 Þannig tók
hann þátt í opinberri pólitískri umræðu þess tíma án þess þó að blanda sér
beinlínis í flokkspólitísk átök eða hversdagslegt dægurþras. Eins og þegar
hefur verið bent á gagnrýndi hann Jón Trausta fyrir að draga upp skrum-
skælda mynd af kenningum sósíalismans í einu verka sinna og í tveimur
greinum í fjórða árgangi Iðunnar, „Á sócialisminn erindi til vor?“ og „Er
sócialisminn í aðsigi?“ gerði Ágúst sjálfur tilraun til að draga upp raun-
særri mynd. Þar gekk hann út frá þeirri skilgreiningu að „sócíalisminn“
væri í senn „verkamannahreyfing“ sem hverfðist um að „bæta og tryggja
kjör verkamanna“ og pólitísk hugmyndafræði sem stefndi að „stórfelldri
breytingu á þjóðfélagsskipuninni“ sem fælist í þjóðnýtingu „flestra fram-
leiðslufyrirtækja“. Ágúst taldi að brautargengi sósíalismans sem pólitískrar
verkamannahreyfingar væri eðlilegur og óhjákvæmilegur þáttur í sögulegri
53 Sjá: Ágúst H. Bjarnason, „Andsvör“, Iðunn, 4/1916–17, ritstj. Einar H. Kvaran og
Ágúst H. Bjarnason, bls. 379–80. Kjarninn í afstöðu Ágústs fólst fyrst og fremst í
því að hófstilling og siðferðileg sjálfstjórn væri ákjósanlegri leið en ytra valdboð til
að stemma stigu við ofdrykkju.
Jakob GuðmunduR RúnaRsson