Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 26
25
þróun iðnvæddra samfélaga. En þótt hann teldi að þau fyrirtæki sem snertu
lífsnauðsynjar hvers manns á borð við „hús og lóðir, samgöngufæri, ljós,
hita og vatn“ ættu að heyra undir stjórn opinberra aðila taldi hann ekki
ráðlegt að hefja þjóðnýtingu allra framleiðslutækja hér á landi, þó svo að
þessi aðalhugsjón sósíalismans mætti vera framtíðarmarkmið samfélags-
ins. En til að samfélagið gæti staðið undir svo víðtækum sameiginlegum
rekstri yrði að uppfylla tvö meginskilyrði. Annarsvegar yrði að vera til
staðar nægjanlegt auðmagn í sameiginlegum sjóðum landsins og hins-
vegar yrði „landsmönnum“ að fara fram í „allri verkhyggni og trúmennsku
í þjónustu hins opinbera“. Besta leiðin til að uppfylla fyrra skilyrðið var
að mati Ágústs að stofna til lögboðinnar skyldutryggingar ellilífeyris eða
„almennrar líftryggingar“ í söfnunarsjóð sem yrði í vörslu hins opinbera.54
Með þeim hætti yrði hægt að styrkja fjárhagslegt sjálfstæði landsins sem
aftur myndi efla pólitískt sjálfstæði sem og innlenda atvinnustarfsemi og
menningu.
Ágúst líkti þessari hugmynd við „þegnskyldu í peningum“ sem ylti á
„föðurlandsást“ hvers og eins; hvort landsmenn væru tilbúnir að „tryggja
landið og framtíð þess í bráð og lengd“. Það var ekki bara svo að um nauð-
synlegt skilyrði fyrir framtíðarhugsjón sósíalismans væri að ræða heldur
hvort Íslendingar væru þess verðir að „lifa sem sjálfstæð og sérstök þjóð“.
Ágúst leit á uppbyggingu öflugs lífeyrissjóðs fyrir allan almenning sem
sósíalískt verkefni ríkisvaldsins og nauðsynlegt skilyrði fyrir því að fram-
tíðarhugsjón sósíalismans næði fram að ganga. En um leið má sjá af mál-
flutningi hans að hann taldi að slíkur sjóður yrði að sama skapi öflugur
og nauðsynlegur grunnur „undir framtíðarhugsjón vorri – þjóðríki vor
Íslendinga“.55 Þjóðernishyggja og jafnaðarstefnan héldust m.ö.o. í hendur.
Svar Ágústs við spurningunni hvort sósíalismi ætti erindi til þjóðarinn-
ar var tvímælalaust jákvætt. En einungis sósíalismi í þeim skilningi og á
þeim forsendum sem hann sjálfur lagði upp með. Í niðurlagi greinarinnar
„Er sócialisminn í aðsigi?“ var rússneska byltingin árið 1917 fordæmd
sem „skrílræði bolchevika“ og alls ekki talin dæmi um eðlilega framrás
sósíalismans. Nær væri að líta til hins þá nýstofnaða Weimarlýðveldis í
54 Ágúst H. Bjarnason, „Á sócialisminn erindi til vor? Lögboðin ellitrygging – stærsta
framtíðarmálið“, Iðunn, 1–2/1918–19, ritstj. Ágúst H. Bjarnason, bls. 83–96, bls.
83–90.
55 Sama heimild, bls. 95–6.
SKEMMTUN, FRÓÐLEIKUR OG NyTSEMD