Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 32
31
félagsgerðarinnar sérstaklega frá sjónarhóli nútímans. Sú menningarlega
þjóðernishyggja sem gengur í gegnum verk Ágústs og heimspeki er gott
dæmi um það. Þrátt fyrir hana verður að líta til þess að ritstjórnarstefna
Ágústs bar ekki hvað síst vott um tilraun hans til að takast á við þær breyt-
ingar og hefðarrof sem fylgdi nútímavæðingunni með uppbyggilegum
hætti. Markmiðið var ekki að koma í veg fyrir þær breytingar sem ein-
kenndu innreið nútímans heldur að benda á hvaða leiðir væru mögulegar
til að skapa lífvænlegt samfélag í ljósi þeirra.74 Og þær leiðir hvíldu m.a.
á grundvelli þeirrar þekkingar og hugmyndafræðilegu afstöðu sem Ágúst
miðlaði til lesenda Iðunnar.
Á G R I P
Skemmtun, fróðleikur og nytsemd.
Heimspekin að baki ritstjórnarstefnu tímaritsins Iðunnar, 1915–23
Á árunum 1915–23 stóð Ágúst H. Bjarnason (1875–1952) að útgáfu tímaritsins Ið-
unnar. Vinsældir þess gerðu honum kleift að ná til stórs hóps landsmanna og taka
virkan þátt í samfélagsumræðu þess tíma. Á forsendum þess „andstæðumódels“ sem
hefur reynst gagnlegt við að greina menningarorðræðu millistríðsáranna hafa textar
eftir Ágúst iðulega verið túlkaðir sem dæmi um þá íhaldssemi, þjóðernishyggju og
andóf gegn nútímavæðingu þjóðfélagsins sem einkenndi málflutning margra borg-
aralegra menntamanna. Við nánari athugun kemur þó í ljós að ritstjórnarstefna
og greinaskrif Ágústs í Iðunni bera vott um að hann hafi ekki tekist á við umrót
nútímans á forsendum ætlaðra afarkosta. Lesendum tímaritsins var ekki leitt fyrir
sjónir að þeir yrðu að snúa baki við þjóðfélagsbreytingum samtímans og leita á náðir
fortíðarinnar. Þvert á móti yrði að takast á við þær af skynsemi og með vísindalega
þekkingu nútímans að vopni. Ritstjórnarstefna Iðunnar hvílir því að mikilsverðu
leyti á heimspekilegri afstöðu Ágústs og varpar auk þess ljósi á hugmyndir hans um
hlutverk heimspekingsins.
Lykilorð: Iðunn, Ágúst H. Bjarnason, raunsæisskáldskapur, nútímavæðing, íhalds-
semi, bókmenntarýni, heimspeki
74 Þessi niðurstaða kallast á við það sem Ólafur Rastrick hefur áður bent á í umfjöllun
sinni um fagurfræði Ágústs sem bar vott um tilraun hans til að „hvetja samborg-
arana til að göfga sálarlíf sitt og hegðun og hefja með því samfélagið upp á æðra
stig.“ Sjá: Ólafur Rastrick, Háborgin, bls. 75.
SKEMMTUN, FRÓÐLEIKUR OG NyTSEMD