Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 62
61
þunga turna og annars konar skraut. Klassísku sögurnar sem Painter valdi
voru slíkur grunnur – þær studdu við þann heim sem nóvellurnar kynntu
til sögunnar. Því byggir hann verk sitt upp þannig að viðurkennd klassísk
verk eru fremst í báðum bindum og samtímatextarnir fylgja svo í kjölfarið.
Eins og fyrr sagði þá segir hann í inngangsorðum sínum sem hann beinir
til Warwicks að hann hafi byrjað á að þýða Livius. Hann notar svo hina
hefðbundnu mælskufræðilegu afsökun (lat. concession) og lýsir því hvernig
hann hafi gefist upp á því verki þar sem aðrir geti gert það betur og snúið
sér að öðrum klassískum höfundum og að lokum að nýrri höfundum. Þessi
lýsing hans hefur orðið til þess að Andrew Hadfield dregur þá ályktun að
markmið verksins liggi í fyrstu klassísku sögunum og að seinni sögurnar
hafi verið nokkurs konar uppfyllingarefni.82 En það að Painter endur-
tekur þessa sömu byggingu í seinna bindinu og það hve vandlega hann
rekur uppruna samtímasagnanna virðist grafa undan þeirri niðurstöðu.
Uppbygging verksins, þessi blanda af klassísku og nýju, hafði afdrifaríkari
afleiðingar en að gefa verkinu aukið vægi byggt á virðingarstöðu hins eldra
efnis, það hafði líka áhrif á túlkun á efninu.
Hlutverk tileinkananna
Það hafði tvennskonar tilgang að tileinka verk hefðarmönnum og öðrum
valdamiklum einstaklingum. Annars vegar voru tileinkanirnar tilraun til að
öðlast, eða þakka fyrir, vernd og jafnvel fjárhagslega aðstoð frá þeim sem
verkið var tileinkað og samhliða var þeim ætlað að tengja verkið valda-
miklum einstaklingum til að öðlast hlutdeild í valdastöðu þeirra. Painter
hafði þegar fengið stöðu sem starfsmaður birgðastöðvar hersins undir
verndarvæng Jarlsins af Warwick, en hann var yfirmaður hennar í umboði
Elísabetar I. Í tileinkun sinni í seinna bindinu segir Painter að hann hafi
gefið út fyrra bindið til að þakka fyrir auðsýndan velvilja Warwicks.83 Þetta
fyrra bindi verksins er skreytt skjaldarmerki Warwicks á forsíðunni, birni
sem heldur á staf umkringdur borða sem á er letrað „Honi soit qui mal y
pense” (mynd 1).84
82 Andrew Hadfield, Literature, Travel, and Colonial Writing in the English Renaiss-
ance, 1545–1625, Oxford: Oxford University Press, 1998, bls. 151.
83 Painter, The Second Tome of the Palace of Pleasure, *3v.
84 Það að þetta sé skjaldarmerki Warwicks kemur fram í bókfræðiupplýsingum fengn-
um frá Joseph Haslewood.
HÖLL ÁNÆGJU OG GAGNSEMI