Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Síða 69
68
rétt að staðalmyndir séu, að því er varðar merkingu þeirra, undarleg
og andstæðukennd blanda, marglaga og sjálfum sér ósamkvæmar,
margsaga. Hinn þeldökki er bæði villimaður (mannæta) og hinn
trúasti og traustasti þjónn; hann er ofsafengin kynvera en samtímis
saklaus eins og barnssálin. Hann er dulrænn, frumstæður, einfaldur
en samhliða veraldarvanur og útsmoginn lygari …7
Það sem Bhabha fjallar hér um er það sem kallað hefur verið tvíhyggja
staðalmyndanna (stereotypical dualism) sem er eitt helsta einkenni á orð-
ræðu nýlenduhyggjunnar.8 Svo sem sjá má eru andstæður mikilvægur hluti
þessarar orðræðu, sælueyja eða djöflaeyja, göfugur villimaður eða siðlaus
villimaður, útópía eða dystópía: andstæður sem virðast ósamrýmanlegar.
En þær eru engu að síður aðeins sami grautur í sömu skál ef svo má að orði
komast og gegna svipuðu hlutverki: Að draga upp ímyndir af exótísku og
framandi samfélagi, samfélagi sem einkennist af undrum og er að flestu
eða öllu leyti andstæða og óæðra samfélagi þess sem lýsir. Slík samfélög má
vel kalla heterótópíur í anda greiningar franska heimspekingsins Michels
Foucault um slíka „staði“.9
Hér má líka nefna orðræðu um eyjar; frá fornu fari hefur verið fjallað
um eyjar sem öðruvísi og ólíkar meginlandi: eyjar eru alltaf einstakar. Þá
þarf einnig að nefna hugtakið norður, eða fremur hið ysta norður, það
skiptir máli í þessu samhengi. Fram eftir 18. öld var afstaða til norðursins
yfirleitt neikvæð þó að andstæðar skoðanir væru einnig kunnar. Þessar
ólíku hugmyndir um norðrið lituðu ímyndir Íslands og Grænlands á marg-
an hátt – og gera enn. Þegar þessi viðhorf tengdust margvíslegum exótísk-
um lýsingum á þessum tveimur löndum urðu til frásagnir sem við getum
kallað bórealisma, óríentalisma eða tropicality, sem ef til vill mætti kalla
hitabeltishyggju, með einkennum hins ysta norðurs. Ekki þarf að fjölyrða
um óríentalisma sem er vel þekktur. Hitabeltishyggjan hefur á hinn bóg-
inn verið sögð einkennast af „orðræðu þar sem vafinn ræður ríkjum, með
7 Homi Bhabha, The Location of Culture, New york: Routledge, 2004, bls. 118.
8 „split into two opposing elements“, Stuart Hall, „The West and the Rest: Discourse
and Power“, Modernity: An Introduction to Modern Societies, ritstj. Stuart Hall, David
Held, Don Hubert og Kenneth Thompson, Oxford: Blackwell Publishers, 1996,
bls. 184–228, hér bls. 215–216.
9 „Þar sem þessir staðir eru allt öðruvísi en allar þær staðsetningar sem þeir endur-
spegla og vitna um, mun ég, til að aðgreina þá frá útópíunum, kalla þá heterótópí-
ur.“ Michel Foucault, „Um önnur rými“, þýð. Benedikt Hjartarson, Ritið 1/2002,
bls. 131–142, hér bls. 136.
sumaRliði R. ísleifsson