Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 74
73
engin ástæða er til að ætla annað en að hann fari rétt með að almenningur
í Evrópu hafi gert lítinn greinarmun á milli landa og eyja lengst í norðri.
Engu að síður taldi Burton ljóst að eitthvað hefðu Íslendingar blandast.
Þar mætti stundum sjá „flöt andlit“ eins og hann sagði, „skásett augu og
sítt svart fax“, og vísar þar til hrossa. Það taldi Burton til marks um að
íslenskir karlmenn hefðu stundum náð sér í konu frá landinu „þar sem
stuttfættir Eskimóar vaga um í snjónum“. Burton var því í vafa um hvers
konar fólk Íslendingar væru, Evrópumenn eða ekki?23 Niðurstaða hans var
sú að þeir væru eitthvað blandaðir, líkir Írum, þó að hauskúpur þessa fólks
væri oftast eins og á Tevtónum, en þessi blanda var ekki sérlega ásjáleg að
mati Burtons, enda var honum lítt um Íra gefið.24 Ljóst má vera að Burton
var vel að sér í kynþáttafræðum en þar skipti lag hauskúpunnar miklu máli
þegar metið var af hvaða kynþætti fólk væri, eins og síðar verður drepið á.
Burton notaði gjarnan samanburð til þess að sýna fram á hvers eðlis
helstu einkenni Íslendinga væru. Athyglisvert er að sjá hversu mjög hann
tengir þá við austrið, the Orient, en þar var Burton vel kunnugur sem
fyrr getur; samanburður við nágrannaþjóðir Íslendinga, að undanskild-
um Grænlendingum og Sömum, er á hinn bóginn afar sjaldgæfur. Um
þetta má sjá mörg dæmi hjá honum. Hann nefndi t.d. að algengt væri að
sjá bækur í kirkjum, rétt eins og í guðshúsum múslíma og að hann hefði
fengið að gista í kirkjum eins og algengt væri í Abyssiníu. Þá var Björn
Gunnlaugsson, kennari við Lærða skólann, eins og múslímastrákur að lesa
Kóraninn. Hann hreyfði sig fram og aftur eins og þeir þar sem hann lá
yfir skræðum sínum.25 Svona voru allir hættir þeirra, t.d. átu mennirnir á
undan konunum, alveg eins og tíðkaðist meðal Drúsa.26 Þá sýndist Burton
að Pétur bóndi í Reykjahlíð í Mývatnssveit líktist helst gömlum Gyðingi
svo hann leitaði víða fanga í samlíkingum sínum úr austrinu.
En Burton fannst líka ástæða til þess að leita enn sunnar en til Mið-
Austurlanda eftir líkingum, til Afríku. Íslendingar unnu t.d. eins og „blá-
menn“ og voru drykkfelldir eins og Afríkumenn, enda líktist landið um
margt Afríku og hugsunarhátturinn virtist svipaður.27 Sem dæmi tók hann
að íslenskur bóndi hefði viljað selja honum lamb á sama verði og fullorðna
kind. Afríkumaðurinn og Íslendingurinn væru því „álíka rökvísir og búast
23 Richard Burton, Ultima Thule II, bls. 215 –220.
24 Richard Burton, Ultima Thule I, bls. 130–132.
25 Sama rit, bls. 11, einnig á bls. 13, 19, 25, 37 og 77; Ultima Thule II, bls. 159, 288.
26 Richard Burton, Ultima Thule II, bls. 315.
27 Sama rit, bls. 29, 42, 68.
INNAN EÐA UTAN EVRÓPU?