Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Síða 75
74
við því að kjúklingur fari á sama verði og hæna“. Þeir væru því óhæfir um
að beita rökum og draga ályktanir, líkt og skynsamt fólk gerði. Þeir ættu
það líka sameiginlegt með Afríkumönnum að vera hrikalegir letingjar,
ágjarnir og siðlausir.28
Hvað sá Burton fyrir sér að ætti að gera við þetta fólk? Jú eitthvað
svipað og Afríkumenn, að reyna að kenna því og ala það upp, breyta hátt-
um þess.29 Það þarf ekki að koma neinum á óvart að Burton var harður
nýlendusinni, enda velti hann mikið fyrir sér hvernig mætti nýta landið af
einhverri skynsemi og þá helst jarðefni þar. Ekki virtist vera fyrir að fara
neinum verðmætum málmum en eitthvað mætti kannski gera úr brenni-
steininum, hann hafði kynnt sér fjölda rita um þessi efni og taldi námurnar
í Mývatnssveit óþrjótandi. En nýtingin yrði sennilega að vera þannig að
vinnuafl yrði fengið frá Bretlandi, hinir innfæddu væru ónothæfir til slíkra
verka, a.m.k. enn sem komið væri.30
Orðræðunni um Grænland og Grænlendinga svipar um margt til þeirra
lýsinga sem ræddar hafa verið hér að framan. Að mati margra sem fjöll-
uðu um Grænland voru íbúarnir „ólýsanleg blanda af villimennsku og
heimsku“.31 Lýsingar á útliti og atgervi Grænlendinga voru oft í þessa
veru. yfirleitt væru þeir afar smávaxnir, vart nema ríflega fimm fet á hæð
og því tæplega fullskapaðir, nema kannski þeir sem hefðu blandast Dönum.
Á litinn væru þeir ólífubrúnir og því andstæða þeirra „hvítu“. Þá væru þeir
svo illa gefnir að yfirleitt væri ekki unnt að kenna þeim að telja nema upp
í fimm og engum upp í meira en tíu. Jafnvel þeir sem væru skást útlít-
andi voru þó í raun viðbjóðslegir.32 Og þegar þeir spjölluðu saman hljóm-
uðu þeir eins og páfagaukar og börnin voru nákvæmlega eins og apar.33
Skilningur þeirra og útlit ætti því meira skylt við dýr en fólk.
28 Sama rit, bls. 252, 285.
29 Sama rit, bls. 288.
30 Sama rit, bls. 301–302, 362.
31 Robert Huis, The Last Voyage of Capt. Sir John Ross, R.N. KNT to the Arctic Regions
for the Discovery of a North West Passage; Performed in the Years 1829–30–31–32 and
33 [etc.], London: John Saunders, 1835, bls. 186.
32 Sama heimild, bls. 247. – Isaac Israel Hayes, An Arctic Boat-Journey in the Autumn
of 1854, ritstj. Dr. Norton Shaw, London: Richard Bentley, 1860, bls. 104; þar lýsir
hann heimamanni svo: „Notwithstanding his greasy face, matted hair, ragged dress,
and disgusting propensity to drink oil, he was the most decent-looking native I had
yet seen.“
33 Sama heimild, bls. 44. – Robert Huis, The Last Voyage of Capt. Sir John Ross, bls.
524.
sumaRliði R. ísleifsson