Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Qupperneq 77
76
Í því skyni voru m.a. gerðar mælingar á fólki og líkamsleifum, heila og
höfuðkúpu fólks. Slíkar mælingar náðu miklum vinsældum á 19. öld – og
miklu lengur þó – og virtir vísindamenn lögðu fram rannsóknaniður stöður
sem áttu að sýna með óyggjandi hætti að heili fólks sem hefði annan upp-
runa en Vestur-Evrópufólk væri minni en heili Evrópumanna. Dæmi eru
um slíkar athuganir á inúítum af hálfu þeirra rannsóknaleiðangra sem voru
í Grænlandi á fyrri hluta 19. aldar þar sem leiðangursmenn komust einmitt
að þessari niðurstöðu.40
Slíkar athugasemdir voru tíðar þegar fulltrúar nýlenduvelda fjölluðu
um fólk á framandi slóðum: Vændi, þjófnaður, grimmd, heimska og svik.
Þessi tegund orðræðu var vel þekkt um Ísland og Grænland á umræddu
tímaskeiði, ekki síst á fyrri hluta tímabilsins. Hún líkist mjög þeirri orð-
ræðu sem var ráðandi í Evrópu um ýmis jaðarsvæði, t.d. lönd Sama eða
Írland, og um lönd og þjóðir í öðrum heimshlutum, Ameríku og Afríku.
Bórealismi hins ysta norðurs virðist líkur hitabeltishyggjunni. Þessi líkindi
birtast einkar skýrt þegar frásagnir frá Íslandi og Grænlandi eru bornar
saman við sumar lýsingar frá Afríku á síðari hluta 18. aldar. Tökum dæmi
úr bókinni The Modern Part of an Universal History, from the Earliest Account
of Time frá 1760. Þar er fullyrt að Afríkumenn hafi ekkert breyst í tímans
rás og ævinlega verið illviljaðir
hatursfullir og haldnir fyrirlitlegum skapgerðareinkennum, enda
væru þeir montnir, latir, svikulir, þjófóttir og lostafullir. Þeir hvettu
til hórdóms, vændis og sifjaspells, ruddaskapar og hefnigirni. Þeir
eru mannætur og blóðsugur, hvikulir, svikulir og huglausir. Hjátrú
og galdur stunda þeir, með öðrum orðum alla þá illsku sem þeir geta
fundið upp á.41
Mikil líkindi eru með þessum texta og umfjöllun Johanns Anderson um
Ísland, og svo orðræðunni um Grænland. Í norðri var kuldinn átakanlegur,
skortur og eymd réð þar ríkjum og lífið var eins andstyggilegt og hugsast
gat. Á sama hátt gat hitinn í suðrinu einnig verið skelfilegur og aðstæður
þar virtust því um margt vera svipaðar og í norðrinu og hafa svipuð áhrif
á mannlífið.
40 Sama heimild, bls. 272, 276, 278.
41 The Modern Part of an Universal History from the Earliest Account of Time. Compiled
from Original Writers by the Authors of the Antient Part, 14. b., London: Printed for
S. Richardson [etc.], 1760, bls. 18.
sumaRliði R. ísleifsson