Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 81
80
dæmi um einlægni landsmanna og hjartahlýju ræddi hann kveðjur þeirra,
fyrst heilsuðust þeir með handabandi en föðmuðust síðan og kysstust.59
Hugmyndir um hinn göfuga villimann á Íslandi birtust einnig, jafnvel
í tærari mynd, í ritum sem voru ætluð börnum og unglingum. Snemma á
19. öld fjallaði t.d. ónafngreindur höfundur The European Delineator (1815)
um Íslendinga á þann hátt í bók sinni sem var fræðirit, einkum ætlað
unglingum. Hann fullyrti að þeir lifðu fjarri heimsins glaumi, auði og
óhófi. Góðhjartaðir væru þeir og gestrisnir umfram aðra, þó að vissulega
gætu þeir ekki veitt gestum sínum af sömu rausn og nafntogaðir forfeður
þeirra. Og svo alvarlegir væru þeir að þeir sæjust vart nokkurn tíma hlæja.
Höfundur líkti þeim við „Lappa“ og Samoyeda. Hann nefndi sérstaklega
ást þessa frumstæða fólks á heimahögum sínum. Það tæki tötraleg tjöld sín
fram yfir hlý hús og gnægtaborð. Svipað ætti við um Íslendinga sem settust
sjaldan að í Kaupmannahöfn heldur sæktu rakleiðis aftur til heimahaga að
loknu erindi.60
Nærtækt er að tengja þessar lýsingar við eldri ímyndir af Íslendingum,
allt frá tímum Adams frá Brimum á 11. öld.61 Það sem er einnig athyglisvert
við þessar frásagnir er að hér eru Íslendingar samtvinnaðir öðrum þjóðum
á jaðri Evrópu, t.d. Sömum, en ekki reynt að tengja þá hinu „siðmenntaða“
germanska norðri í Skandinavíu og Danmörku. Sú ímynd var því einnig til
á þessum tíma að líta á Íslendinga sem hóp sem stæði utan „siðmenning-
arinnar“ en hefði engu að síður margvíslega jákvæða eiginleika.
Þrátt fyrir það sem áður er greint færðist Ísland nær Evrópu, ef svo má
segja, eftir miðja 18. öld. Þá var einnig farið að kynna land og þjóð sem
„venjuleg“, að minnsta kosti að sumu leyti, þó að þar gæti vissulega verið
margt sérkennilegt að finna. Á þetta lagði Daninn Niels Horrebow áherslu
þegar hann fjallaði um Íslendinga undir miðja 18. öld; hann taldi raunar
þörf á að lýsa því yfir að ekki léki vafi á að þeir væru mannlegar verur en
ekki dýr.62 Horrebow vann að því, sem fyrr segir, að vekja skilning á því
að aðstæður á Íslandi væru líkari því sem tíðkaðist í nágrannalöndunum í
59 Sama rit, bls. 156–157.
60 The European Delineator: Containing Brief, but Interesting Descriptions of Russia,
Sweden, Denmark, Norway, &c. &c. &c. [etc.], Leeds: B. Dewhirst, 1815, bls. 126.
61 Sumarliði R. Ísleifsson, Tvær eyjar á jaðrinum.
62 Niels Horrebow, The Natural History of Iceland: Containing a Particular and Accurate
Account of the Different Soils, Burning Mountains, Minerals, Vegetables, Metals, Stones,
Beasts, Birds, and Fishes; Together with the Disposition, Customs, and Manners of Living
of the Inhabitants [etc.], London: A. Linde, 1758, bls. 105.
sumaRliði R. ísleifsson