Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 85
84
sé sjálfur myndhöggvarinn Thorvaldsen sonur þjóðarinnar og þeir hafi átt
mörg afburða skáld og fræðimenn. Þá hafi helstu öndvegishöfundar enskrar
tungu verið þýddir á íslensku og árlega sé gefinn út ótrúlegur fjöldi bóka.78
Miles tengir menningarástand þjóðarinnar við það að stöðugt sé unnið að
því að mennta fólk á heimilunum, með lestri á sögulegu efni eða Biblíunni,
samhliða því að unnið sé að hannyrðum, enda kunni allir að lesa og skrifa,
yfirleitt frábærlega vel. Fyrir þessu sé löng hefð, allt frá upphafsdögum
byggðar á Íslandi, en að öðru leyti séu nú breyttir tímar og alls ekki sami
hetjubragur og taumleysi og fyrrum, enda séu Íslendingar nú sveitafólk
sem lifi einföldu lífi.79 Höfundur er ekki í vafa um hvernig eigi að flokka
Íslendinga og líkist þeir hinum engil-saxneska kynþætti (the Anglo Saxon
race). Oft séu þeir hávaxnir og yfirleitt ljóshærðir og sumir jafningjar hins
besta sem fyrirfinnist meðal hins kákasíska kynstofns.80
Ímyndasmíð Pliny Miles um Íslendinga er ærið fjölbreytt. Hann ræðir
annars vegar um menntað samfélag víkinga til forna, eins konar Hellas
norðursins þó svo að hann noti ekki það hugtak.81 Í samtímanum megi
hins vegar sjá fólk lifa í eins konar arkadíu, frumstæðu lífi en þó sé fólkið
vel menntað: Eins konar göfugir, menntaðir villimenn! Hann ber ótta í
brjósti yfir því að áhrif frá siðmenningunni geti spillt þessu hjartahreina
og góða fólki en lýsir Íslendingum þó einnig sem nútímalegum. Miles er
kynþáttahyggja töm á tungu og þekkir vel til hvernig „hvítu“ fólki hefur
verið skipt niður í kynstofna. Hann er ekki í vafa um hvernig eigi að flokka
Íslendinga í því samhengi, meðal þess besta. Miles blandar sér einnig inn
í umræðu fyrri Íslandsfara og -höfunda og vitnar víða í eldri rit sem hann
styðst við. Hann fordæmir harðlega skoðanir sem draga í efa þær hug-
myndir að Ísland sé eins konar sælueyja frumstæðs og menntaðs fólks,
afkomenda þess fólks sem hann telur vera kjarna mannkyns, hins ger-
manska kynstofns.
Yfirlit og niðurstöður
Lýsingar á Íslandi og Grænlandi á umræddu tímabili voru fullar af and-
stæðum. Margir textar virtust vera furðulega samsettur grautur, sambland
78 Pliny Miles, Norðurfari: Or, Rambles in Iceland, bls. 52–53, 294–296.
79 Sama rit, bls. 58–59, 293.
80 Sama rit, bls. 59, 271, 292, 311, 317.
81 Nánar um þetta efni, Sumarliði R. Ísleifsson, „Icelandic National Images in the
19th and 20th Centuries“, Images of the North, ritstj. Sverrir Jakobsson, Amsterdam,
New york: Rodopi, Studia Imagologica, bls. 149–158.
sumaRliði R. ísleifsson