Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 94
93
gegnir í lífi lesenda, hún er leiðbeinandi, kennslukona sem hjálpar fólki
að taka ákvarðanir, kær vinur sem aðstoðar lesendur sína í dagsins amstri
og önn. Áhugavert er að Shih segir að hún hafi gert rödd Austen að sinni
eigin. Það vekur okkur til umhugsunar um það hvort lestur sem eigi að
vera til sáluhjálpar geti verið fyrirskipandi líkt og sjálfshjálparrit samtím-
ans eru gjarnan. Hvort finna megi réttu svörin í slíkum lestri eða að hann
hjálpi raunverulega til þess að taka réttar ákvarðanir. Mögulegt er að slíkur
lestur geri það að verkum að einstaklingurinn vilji breyta lífi sínu, en ekki
víst að sú breyting hjálpi honum að takast á við erfiðleika.
Það er einnig ráðandi sýn í bók Lori Smith The Jane Austen Guide to Life,
að í lestri á sögum Austen felist djúpstætt mannræktargildi.12 Handleiðsla
Austen verður svo mikilvæg í huga Smith að hún heldur í pílagrímsför
á slóðir skáldkonunnar og nær við það dýpra sambandi við sjálfa sig og
Guð sinn. Ferðinni lýsir hún í annarri bók um Austen, A Walk with Jane
Austen. A Journey into Adventure, Love & Faith.13 Í bókum Smith verður
Austen að græðara, vinkonu sem hvetur mann til þess að hlusta á samvisku
sína, án þess að hláturinn og gleðin séu nokkru sinni langt undan. Í huga
Austen séu heilindi hjartans (eða sálarinnar) mikilvægari en eignir eða
staða innan samfélagsins. Innri siðferðisrödd eða samviska eigi að stýra
daglegum athöfnum og við eigum að vera trú siðferðilegri dómgreind
okkar. Söguhetjur Austen eigi það sameiginlegt að standa sjálfstæðar og
óttalausar með eigin sannfæringu.14
Þessi hugmynd um Jane Austen sem vin og kennimóður er einnig rík í
verki Williams Deresiewicz A Jane Austen Education. How Six Novels Taught
Me About Love, Friendship and the Things That Really Matter, en hann sækir
í trúarlegar umbreytingarbókmenntir og sjálfshjálparrit þegar hann lýsir
innri breytingu sinni af lestrinum á sex skáldsögum Austen.15 Deresiewicz
nálgast sögur Jane Austen eins og um kennslubækur sé að ræða, sögurnar
varpi ljósi á hið mikilvæga í lífinu, afhjúpi hans eigin galla og sýni honum
yfirborðslegt líferni þeirra sem hann umgengst.
„Hvað er málið með Jane Austen? Hvað er þarna innra með henni? Um
12 Lori Smith, The Jane Austen Guide to Life. Thoughtful Lessons for the Modern Woman,
Connecticut, Guilford: Skirt!, 2012.
13 Lori Smith, A Walk with Jane Austen. A Journey into Adventure, Love & Faith, Color-
ado Springs, Colorado: WaterBrook Press, 2007.
14 Lori Smith, The Jane Austen Guide to Life, bls. 199–200.
15 William Deresiewicz, A Jane Austen Education. How Six Novels Taught Me About
Love, Friendship and the Things That Really Matter, New york: The Penguin Press,
2011.
VISKA JANE AUSTEN OG FERÐ LESANDANS