Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 96
95
viðbrögð fjölskyldu Austen og yfirlýsingar ýmissa þekktra gagnrýnenda
og menningarfrömuða um verk hennar, jafnt skoðanir bandamanna sem
og andstæðinga. Aftast í þessum hluta má finna spurningar sem persónur
sögunnar varpa fram um bækur Austen, en hinn almenni lesandi getur
í senn litið á þær sem útgangspunkt í hugleiðingum um Austen og sem
leið til þess að skilja persónur Jane Austen leshringsins betur vegna þess að
spurningunum er einnig ætlað að varpa ljósi á þær, á hugðarefni þeirra og
áhugamál. Það er til dæmis líklegt að lesandi setji spurningu Sylvíu í eft-
irfarandi tilvitun í samhengi við það að eiginmaður hennar hefur nýlega
yfirgefið hana:
„Óskið þið þess einhvern tíma að maki ykkar hefði verið skrifaður
af betri höfundi, samtölin hans væru betri og hann þjáðist á meira
heillandi hátt? Hvaða rithöfund mynduð þið velja?“18
Spurningar eina karlmannsins í leshringnum fjalla að sama skapi um skil-
greiningar á bókmenntagreinunum ástarsögum og vísindaskáldsögum.
Spurningar hans má greina sem tilraun til þess að fella nýtilfundinn áhuga
hans á Austen að samfélagslega viðurkenndum (og karlmannlegum) smekk
sínum.19
Viðfangsefni Jane Austen leshringsins er öðrum þræði sú fjölbreytilega
samneysla sem fer fram á verkum Austen í almenningsrýminu (e. public
space). Hana má finna í sinni víðustu mynd á netinu, svo sem á spjallborð-
um stórra vefsíðna þar sem aðdáendur tjá sig um hvaðeina sem tengist
skáldkonunni, eins og á The Republic of Pemberley.20 Í öðrum tilvikum koma
aðdáendur Austen saman á fundum, en á vefsíðu JASNA (The Jane Austen
Society of North America) má finna yfir 70 aðdáendahópa frá hinum
ýmsu svæðum Norður-Ameríku og eru félagar hvattir til þess að taka þátt
í starfseminni í næsta nágrenni.21 Sumir ,samkomustaðirnir‘ á netinu eru
smærri í sniðum en The Republic of Pemberley, en gegna þó sama hlutverki,
18 Karen Joy Fowler, Jane Austen leshringurinn [2004], þýð. Eva Hrönn Stefánsdóttir
og Ölvir Gíslason, Reykjavík: Stílbrot, 2007, bls. 252.
19 Sama heimild, bls. 251–252. Grigg segir: „Margir vísindaskáldsagnaunnendur eru
líka hrifnir af Austen. Af hverju heldurðu að það sé? Heldurðu að margir aðdáendur
Austen séu líka hrifnir af vísindaskáldskap?“
20 Sjá The Republic of Pemberley: http://www.pemberley.com/ [sótt 27. júlí 2013].
21 Sjá Jasna Regional Groups: http://www.jasna.org/regions/index.html [sótt 27.
júlí 2013].
VISKA JANE AUSTEN OG FERÐ LESANDANS