Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 97
96
þ.e. að leiða saman alla þá sem ekki vilja njóta verka Austen í einrúmi.
Í sumum tilvikum eins og á vefsíðu Maria Grazia My Jane Austen Book
Club er áherslan lögð á viðteknar samtímahugmyndir um skáldkonuna eins
og vefbendillinn „hinnleyndiskilningurhjartans.blog.com“ gefur skýrt til
kynna.22 Í öðrum tilvikum, eins og í Dark Jane Austen Book Club, er reynt
að höfða til lesenda sem kjósa að lesa þvert á hefðina og sjá í Austen meiri
uppreisn og myrkari myndir en almennari túlkunaraðferðir gera ráð fyrir,
í anda þeirra fjölmörgu hrollvekja sem komið hafa út á síðustu árum og
spunnar eru upp úr skáldsögum Austen eða með skapandi hætti út frá höf-
undarímynd hennar.23
Það kemur líklega ekki á óvart að samkundur sem þessar hafi sprottið
upp í kringum vefsvæði helguð Austen, netið býður upp á meiri virkni
en hefðbundnir prent- og myndmiðlar. En hvað um allar þær bækur sem
skrifaðar hafa verið um skáldkonuna, eða eru byggðar á verkum hennar?
Á hvaða hátt má þar greina þörfina fyrir að deila með öðrum persónulegri
lestrarreynslu af Austen? Í bók sinni Book Clubs: Women and the Uses of
Reading in Everyday Life minnir Elizabeth Long á að lestur sé samfélags-
leg athöfn ólíkt því sem gjarnan er talið. Myndin af hinum einangraða
lesanda hefur um langa hríð stýrt skilningi okkar á lestri eins og sjá má
snemma í kristilegri list og hefur verið mótandi sýn allt fram á nítjándu
öld. Lesandinn hefur líkt og rithöfundurinn lokað sig af frá heiminum og
forðast mannleg samskipti. Að sama skapi er fræðimaðurinn sem stýrist af
þessum lestrarhugmyndum einangraður og ekki í sambandi við umhverfi
sitt. Þessar ímyndir ganga gegn lestri sem félagslegri athöfn24 og birtast
hvað skýrast í samhengi þessarar ritgerðar í gagnrýnum kenningum ýmissa
annarrar kynslóðar femínista um hinn einangraða og firrta lesanda ást-
arsagna og í hugmyndinni um siðbótarlestur sjálfshjálparritsins, en það er
22 Sjá Maria Grazia, My Jane Austen Book Club: http://thesecretunderstandingofthe-
hearts.blogspot.com/ [sótt 27. júlí 2013].
23 Umsjónarmenn Dark Jane Austen Book Club eru Sarah Jessica og Veronica Monique.
Á leslista vefsvæðisins má sjá að meðal bóka sem lesnar hafa verið eru: Pulse and
Prejudice eftir Colette Saucier, The Disappearance of Georgiana Darcy eftir Regina
Jeffers, Emma and the Vampires sem skrifuð var af Jane Austen og Wayne Josephson,
Pride and Platypus: Darcy’s Dreadful Secret eftir Jane Austen og Vera Nazarian, og
bókin sem hratt hryllingsæðinu af stað, Pride and Prejudice and Zombies eftir Jane
Austen og Seth Grahame-Smith. Sjá: http://www.darkjaneaustenbookclub.com/
reading-list [sótt 27. júlí 2013].
24 Elizabeth Long, Book Clubs: Women and the Uses of Reading in Everyday Life, Chicago
og London: The University of Chicago Press, 2003, bls. 2.
ALDA BJÖRK VALDIMARSDÓTTIR