Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 113
112
Sylvía: „Það þýðir að hann má vera“.83 Þannig „hvetur“ Austen hana til að
skoða hug sinn og ákveða sjálf hvaða svar hún vilji fá út úr kúlunni. Jane
Austen kúlan hjálpar þeim sem spyrja hana að átta sig á eigin tilfinningum.
Lesandi bókarinnar situr hins vegar uppi með efasemdir um það hvort
þessi ákvörðun hjá Sylvíu muni leiða til frekari hamingju hennar.
Jane Austen svarar líka öðrum leynilegum spurningum á fundinum.
Grigg lætur sem hann sé að spyrja hvort hann eigi að skrifa skáldsögu en
Austen svarar annarri spurningu sem Grigg ber upp fyrir sjálfan sig um
mögulegt samband sitt og Jocelyn: „Hann færir sig nær, skref fyrir skref, og
hættir ekki á neitt fyrr en hann er viss um að hann sé öruggur“. Og Jocelyn
sem lítur sérstaklega vel út á þessum síðasta fundi fær opið svar við opinni
spurningu sinni: „Ætti ég að taka áhættu?“ Svar Austen er: „Það eru ekki
allir sem hafa sömu ástríðu og þú fyrir visnuðum laufum“.84
Leshringurinn hittist einu sinni eftir þetta. Þá er Bernadette búin að
gifta sig aftur og ætlar að flytjast til Kosta Ríka burt frá börnum, barna-
börnum og barnabarnabörnum. Meðlimir hringsins eru ekki vissir um
hvernig beri að túlka þessa ákvörðun: „Við vorum auðvitað glaðar fyrir
hennar hönd og hins heppna señors Obandos en við vorum svolítið döpur
líka. Það er langt til Kosta Ríka.“85 Lesandinn er heldur ekki viss um að slík
skyndiákvörðun sé farsæl fyrir Bernadette. Allegra hefur endurnýjað kynni
sín við Corinne, sem enginn telur að eigi eftir að endast: „Það er erfitt að
láta sér líka vel við Corinne núna og erfitt að trúa á sambandið.“86 Daníel
er fluttur aftur heim til Sylvíu og Jocelyn og Grigg eru farin að hittast.
Ástæðan fyrir þessum umtalsverðu breytingum í lífi persónanna er einföld
eins og áréttað er undir lok sögunnar: „Við höfðum hleypt Jane Austen
inn í líf okkar og nú vorum við allar giftar eða í samböndum. […] Eftir
þrjú eða fjögur ár yrði kominn tími til að lesa bækur Jane Austen aftur.“87
Breytingarnar á högum persónanna virðast jákvæðar fyrir sumar en þó er
erfitt fyrir lesandann að trúa því að það að stofna til ástarsambanda sé alltaf
farsælasta leiðin út úr erfiðleikum eða leiði alltaf til hamingju. Sérstaklega
ekki þegar haft er í huga að ákvarðanir sumra persónanna virðast byggja á
þeim skyndilausnum sem eru svo algengar í sjálfshjálparbókum.
83 Sama heimild, bls. 213.
84 Sama heimild, bls. 208.
85 Sama heimild, bls. 220.
86 Sama heimild, bls. 221.
87 Sama heimild, bls. 221.
ALDA BJÖRK VALDIMARSDÓTTIR