Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Síða 116
115
Ritið 2/2015, bls. 115–146
Eitt af algengum einkennum ritdóma er ákveðinn jafnvægisdans milli
fræðilegrar og alþýðlegrar orðræðu, enda byggja ritdómarar vald sitt jöfn-
um höndum á því að vera fulltrúar alþýðunnar, hins „almenna lesanda“, og
í hlutverki sérfræðinga. Í textanum sem kallaður hefur verið „fyrsti íslenski
ritdómurinn“1 gefur Jónas Hallgrímsson til dæmis texta sínum yfirbragð
vísindalegrar aðferðafræði, þá einna helst með miklum fjölda dæma sem
rökstyðja neikvætt mat hans á rímum Sigurðar Breiðfjörðs, en einnig með
því að beina reglulega athyglinni að skipulegri niðurröðun viðfangsefnisins
í ákveðna flokka.2 Jónas beitir þó jafnframt ýmsum stílbrögðum, eins og að
ávarpa lesandann á persónulegan hátt, til að gefa textanum „alþýðlegt“
yfirbragð. Sömu tilhneigingu má jafnvel sjá strax í listum séra Þorgeirs
Guðmundssonar yfir ný og áhugaverð rit í Skírni á árunum 1827–1830, en
slíkir listar voru undanfari eiginlegra ritdóma og þar mátti stundum finna
stuttar umsagnir um bækur. Þorgeir hefur mikinn áhuga á ritum um guð-
fræði og vísar þar til ýmissa samtímarannsókna, kenninga og álitaefna, en
hann gerir það á aðgengilegan hátt og leggur jafnframt áherslu á að fræði
eigi að vera matreidd þannig að þau séu skiljanleg almennum lesendum.
1 Jónas Hallgrímsson, „Rímur af Tistrani og Indíönu, orktar af Sigurði Breidfjörd,
(prentaðar í Kaupmannahöfn, 1831)“, Fjölnir, 3/1837, bls. 18–29.
2 Hér sækir Jónas í hefð náttúruvísinda, en Matthías Viðar Sæmundsson hefur bent
á að slíkt skipulag og flokkun einkenndi íslensk náttúruvísindi 18. aldar. Náttúran
„varð að efnislegu fyrirbæri er laut vélrænum reglum sem unnt var að nafngreina
og flokka með vissu kerfi“. Matthías Viðar vísar til Foucaults í þessu samhengi:
Verkefni vísindamannsins hafi verið „að sýna reglu sem þegar var til staðar, búa til
kerfi nafna um fyrirbæri reynslunnar“. Matthías Viðar Sæmundsson: „Menning í
deiglu“, Íslensk Bókmenntasaga III, ritstj. Halldór Guðmundsson, Reykjavík: Mál
og menning. 1996, bls. 23–70, hér bls. 51–52 og 56.
auður aðalsteinsdóttir
Á slóðum hjartalausra fræðinga
Tilfinningar og fræði í ritdómum 20. aldar