Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Síða 118
117
eigin, sjálfstæðu birtingarmynd í listheiminum; verður ímynd brjálaða,
fræðilega listgagnrýnandans sem er knúinn áfram af afbrigðilegum hvöt-
um, afvegaleiddur af möguleikum hinnar nýju tækni og skeytingarlaus um
afleiðingarnar – sem eru þær að mennskan eins og við þekkjum hana deyr.
Eitt af þrástefjum 20. aldarinnar varð því sú tvíbenta staða gagnrýnenda að
eiga að verja stöðu listarinnar og mennskunnar en vera um leið talsmenn
framsækinna vísinda.
Vísindin og ættjarðarástin
Íslenskir ritdómar um bókmenntir urðu til á mörkum bókmenntasviðsins,
fræðasviðsins og fjölmiðlasviðsins, og bera einkenni af skörun (samvinnu
og átökum) þessara þriggja og fleiri sviða (þá sérstaklega stjórnmálasviðs-
ins og í vaxandi mæli markaðssviðsins).7 Á 20. öldinni varð krafan um
sjálfstæði bókmenntagagnrýninnar hávær og byggir hún að mörgu leyti
á þessari sérstöðu hennar á mörkum ólíkra sviða. Árið 1890 slær Oscar
Wilde tóninn er hann hafnar því að gagnrýnin sé aðeins í þjónustuhlut-
verki á listasviðinu heldur sé hún, eins og listin, bæði skapandi og sjálfstæð.
Á sama hátt og klassísku skáldin hafi ekki unnið úr lífinu sjálfu heldur úr
goðsögum og hetjusögum, fáist gagnrýnandinn að auki við skáldskap, efni-
við sem aðrir hafi eimað fyrir hann, og bæti við formi og lit með ímynd-
unarafli sínu. Því sé æðsta form gagnrýninnar meira skapandi en sköpun
því hún hafi minni vísanir til ytri viðmiða og aðeins eigin ástæður fyrir
tilveru sinni. Ekki megi því dæma gagnrýni út frá því hvort hún nái að lýsa
verkinu sem fjallað sé um, né gera kröfu um að hún eigi að vera sanngjörn
gagnvart verkinu sem gagnrýnt er – eða hafi yfirhöfuð nokkrar skyldur
aðrar en að þjóna gagnrýninni sjálfri.8
Krafan um sjálfstæði gagnrýninnar var ekki bundin við þessa „skap-
andi“ hlið hennar og átti sér einnig talsmenn meðal akademískra fræði-
manna. Þeir sem fengust við bókmenntafræði gerðu stundum kröfu um
7 Hér er stuðst við kenningar franska félagsfræðingsins Pierres Bourdieu um svið.
Sjá t.d. Pierre Bourdieu, „The Political Field, the Social Science Field, and the
Journalistic Field“, þýð. Richard Nice, Bourdieu and the Journalistic Field, ritstj.
Rodney Benson og Erik Neveu, Cambridge og Malden: Polity Press, 2005, bls.
29–47, hér bls. 30.
8 Oscar Wilde, „The Critic as Artist“, The Artist as Critic. Critical Writings of Oscar
Wilde, ritstj. Richard Ellmann, London: W.H. Allen, 1970, bls. 340–408, hér bls.
364-366.
Á SLÓÐUM HJARTALAUSRA FRÆÐINGA