Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 122
121
að hafa dóm sinn aðgengilegan; lipurlega skrifaðan og með skemmtileg-
um innskotum um sérvitringa á borð við Björn Gunnlaugsson, Hannes
Árnason og Sören Kierkegaard. Í þessu ljósi kemur ekki á óvart að fyrsti
kosturinn sem Björg nefnir við bók Guðmundar Finnbogasonar er að hún
sé „í bezta skilningi alþýðleg“; málið sé „létt og lipurt og frásögnin svo
greinileg, að hvert barnið [svo] getur skilið hvert einstakt atriði án frekari
skýringa“.21 Hún klifar þannig á alþýðleika ritsins út allan ritdóminn en
greinilegt er á ýmsum athugasemdum hennar að ritið stenst síður vísinda-
legar kröfur:
En þrátt fyrir það, þótt höf. virðist hafa gert of mikið úr einni aðferð
vorri til að skynja sálarlíf annarra – elztu og óbrotnustu aðferðinni
– og of lítið tillit tekið til þess, að „mönnunum munar – annaðhvort
aftur á bak – ellegar nokkuð á leið“, þá er svo mikið og margt á bók
hans að græða, að allir hugsandi alþýðumenn ættu að lesa hana.22
Sama niðurstaða blasir við varðandi Drauma Hermanns Jónassonar; bókin
stenst illa vísindalegar kröfur að mati Bjargar en er „skemtileg aflestrar og
ber vott um einkennilegt sálarlíf, sem vel er þess vert, að því sé gaumur
gefinn“.23 Saga hugsunar minnar eftir Brynjúlf Jónsson er að sama skapi
„að ýmsu leyti eftirtektaverð, ekki sízt vegna þess, að þetta er í fyrsta sinn
sem sjálfmentaður íslenzkur alþýðumaður ritar um heimspekilegt efni“,
höfundur hefur „góðar og frumlegar gáfur“ og frásögnin er „lipur og ljós
og bókin því auðlesin“.24
Björg kann að meta tilraunir til að samþætta vísindalega áherslu og
alþýðlega framsetningu og gerir það sjálf í dómum sínum. Skáldlegar til-
vitnanir eru til dæmis nokkuð augljósar tilraunir til að ná betra sambandi
við „sagnaþjóðina“, enda telur Björg að „engin ný speki“ geti „numið land
í hug almennings, án þess að tengjast trygðaböndum við þær hugsanir, er
þar búa fyrir, og þær tilfinningar, er frá alda öðli eiga sér bólfestu í mann-
eðlinu“.25 Það er því ljóst að Björg lítur öðrum þræði á sig sem boðbera
nýrrar, vísindalegrar hugsunar og að markmið hennar er að samþætta vís-
21 Sama rit, bls. 218.
22 Sama rit, bls. 220.
23 Björg C. Þorláksson, ritdómur um Drauma eftir Hermann Jónasson, bls. 148.
24 Björg C. Þorláksson, ritdómur um Sögu hugsunar minnar eftir Brynjúlf Jónsson,
Eimreiðin, 3/1914, bls. 224–226, hér bls. 225–226.
25 Björg C. Þorláksson, ritdómur um Hug og heim eftir Guðmund Finnbogason, bls.
218.
Á SLÓÐUM HJARTALAUSRA FRÆÐINGA