Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 131
130
sammannlegt. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að þrír þeirra mennta-
manna sem höfðu sig hvað mest frammi í menningarumræðunni á önd-
verðri 20. öld, Ágúst H. Bjarnason, Guðmundur Finnbogason og Sigurður
Nordal, settu fram hugmyndir sem báru með sér „sálarfræði sem gekk út
á betrun einstaklingsins og hafði að markmiði að hafa áhrif á hvernig ein-
staklingurinn mótaði sjálfan sig“, eins og Ólafur Rastrick hefur bent á.54
Munurinn á gagnrýnanda og venjulegum lesanda er hins vegar sá að
sá fyrrnefndi er ekki einungis talinn hafa þá samfélagslegu skyldu að leit-
ast við að bæta sjálfan sig og þar með samfélagið, heldur á hann að leitast
við að bæta bókmenntirnar og aðra lesendur og þar með samfélagið. Í því
felst, fyrir hinn vísindalega sinnaða gagnrýnanda í upphafi 20. aldar, að
byggja upp heildstæða mynd af viðfangsefninu og gera tilraunir til að setja
fram heilsteyptar hugsjónir og kenningar til að byggja á göfugt, íslenskt
samfélag. Árið 1917 lýsir Alexander Jóhannesson til dæmis yfir í grein um
Hannes Hafstein í Óðni:
Er það harla ljelegt starf að velja úr einstök kvæði og segja um þau,
að þau sjeu góð eða lítilsvirði, eða ná í einstök orð, sem ekki eru
gullaldaríslenska eða því um líkt. Á slíkum sundurlausum molum
er lítið að græða, ef ekki er leitast við að benda á aðaldrættina eða
ná heildarlýsingu; því allajafna verða slíkir ritdómar órjettlátir og
ósannir, um of eða van.55
Fyrsta skrefið sem Alexander býður almenningi að stíga með sér er „að
kynnast nánar skáldskap H. H., einkum hvað efni viðvíkur, og leitast við
að horfa inn í hugsjónageim hans, hversu heimurinn lítur út í augum
skáldsins H. H.“.56 Þessi áhersla á „hugsjónageim“ höfundarins gerir það
að verkum að skáldið verður meginviðfang bókmenntarýninnar, eins og
Vésteinn Ólason bendir á að sé raunin í skrifum Sigurðar Nordals, þótt
endanlega markmiðið sé „bókmenntaleg og söguleg yfirsýn þar sem ein-
stök verk birtast í víðara samhengi“, sem er „þjóðlegt íslenskt samhengi“.57
54 Ólafur Rastrick, Háborgin. Menning, fagurfræði og pólitík í upphafi tuttugustu aldar,
Reykjavík: Háskólaútgáfan og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 2013, bls. 45,
62–63, 66 og 73. Ólafur fjallar nokkuð ítarlega um aukið vægi sálarfræði í upp-
hafi 20. aldar og um tengsl sálarfræðilegra hugmynda og umræðu um sérstöðu og
sjálfsmynd Íslendinga. Sjá sama rit, bls. 86–101.
55 Alexander Jóhannesson, „Um skáldskap Hannesar Hafsteins“, bls. 81.
56 Sama rit, bls. 81.
57 Vésteinn Ólason, „Bókmenntarýni Sigurðar Nordals“, Tímarit Máls og menningar,
1/1984, bls. 5–18, hér bls. 11 og 7.
AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR