Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Síða 133
132
Stíllinn er þrátt fyrir þessa uppsetningu og áherslur langt frá því að vera
tyrfinn en hann verður mun ljóðrænni og dramatískari þegar Drífa fer að
miðla tilfinningunni í ljóðunum, sem hún notar samkvæmt hefðinni sem
tengingu við skáldið:
Í kvæðinu „Til Þingvalla“ rísa hinar heitu tilfinningar [skáldkon-
unnar] upp sem hróp, það er skapheitt ættjarðarljóð. […] Í því ljóði
leikur hún á ótal strengi, sára, vonlausa, tæra, hún sér og heyrir.60
Í kjölfarið fléttar Drífa ljóðrænum stílnum við tilraun sína til að skilgreina
og flokka einkennin á ljóðum Arnfríðar með tæknilegu orðfæri og rök-
stuðningi frá dæmum úr textanum:
Mesta ljóðið er bálkurinn „Læstir dagar“ mikið ljóð og víða torskil-
ið, táknmál, „symfóniskt“ ljóð þar sem hún notar tækni tónskálda
að undirbúa efnið smátt og smátt, gera boð á undan sér með einum
og einum hljómi, einu og einu orði, endurtaka hér og hvar, tvískipt
ljóð milli sjónræns og heyrnarlegs. En innúr myrkviði þessara ljóða
koma setningar sem eru einfaldar og áreynslulausar og einkenni
nútímakveðskapar: „Það náttaði og regnið grúfði yfir brekkunni.“
Þessar einföldu setningar koma víðar fyrir þegar hún þræðir einstigi
ljóða sinna og hljóma svo yndislega: „Hlusta – þessi nótt hefur valið
einfaldan söng.“61
Fagurfræðilegur dómur Drífu takmarkast að mestu leyti við slíkar lýs-
ingar á lestrarupplifun sem fléttað er við greiningu á formgerð kvæðanna,
og hún nefnir bæði kosti og galla áður en hún kemst að eftirfarandi nið-
urstöðu sem vísar til þjóðlegra gilda; fornbókmenntanna, þjóðsagnaarfsins
og sögulegrar fortíðar:
Það sem setur sterkastan blæ á ljóðin, er hversu fágað mál skáldkon-
an kann, það er sem að lesa Eddukvæði. Ljóðin standa föstum fótum
í fortíð og nútíð. Skáldkonan er sérstæður persónuleiki, álfkona eða
fornkona í íslenzkum nútímakveðskap. Ljóðabókin er mikill fengur
ljóðagerð síðari tíma.62
60 Sama rit, bls. 14.
61 Sama rit, bls. 14.
62 Sama rit, bls. 14.
AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR