Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Síða 136
135
fyrirhafnarlauss lesturs fortíðar þar sem lesandinn innbyrti siðmenntandi
áhrif lestursins ómeðvitað og ósjálfrátt. Samkvæmt Gunnari eru samtíma-
gagnrýnendur ekki aðeins ófærir um að lesa texta á alþýðlegan, náttúru-
legan hátt; þeir geta heldur ekki skrifað texta sem nær til almennra lesenda.
Bókin Fljótt fljótt sagði fuglinn eftir Thor Vilhjálmsson hafi fengið „næsta
hátíðlega umsögn af vörum vandvirks menntafólks og fagurt lof“, en „á
þann veg“ að Gunnar „varð bókstaflega engu nær um það, hvers konar
bók þetta var“. Slík „lofgerðarvella gagnrýninnar […] og allar vangavelt-
urnar og öll spekiyrðin, sem enginn heilvita maður fær nokkurn botn í“
hafi hreinlega skemmt lestrarnautn hans af Kristnihaldi undir Jökli en hvað
Fljótt fljótt sagði fuglinn áhrærir telur Gunnar hvort eð er enga nautn úr því
verki að hafa þar sem hann hafi hvergi getað fundið þar neitt til að fóta sig
á, heldur hafi hann sem lesandi svifið í lausu lofti.72
Í viðbrögðum Indriða G. Þorsteinssonar við kennslubók í bókmennta-
fræði eftir Njörð P. Njarðvík, sem kom út árið 1975, er enn lögð meg-
ináhersla á varðveislu og þróun hins séríslenska og koma fram áhyggjur
af því að útlend sjónarmið ráði því við Háskólann hvernig íslenskar bók-
menntir séu túlkaðar og metnar. Indriði segir það hljóta, af „augljósum
ástæðum“, að hafa verið „til baga að hafa ekki [haft] bók á íslenzku, og
um íslenzk viðfangsefni, til slíkra nota“ og lítur á bók Njarðar sem þátt
„í hinni daglegu sjálfstæðisbaráttu“. Indriði vísar jafnframt í hefðbundna
tengingu hins þjóðlega og hins alþýðlega og leggur gamalkunna áherslu
á að bók Njarðar sé auðveld „til skilnings öllum almennum lesendum“.
Helsta gildi bókarinnar virðist, að mati Indriða, vera það að Njörður uni
„ekki erlendum forsagnarverkum,“ við kennslu íslenskra bókmennta, og
hann vinni þar með gegn þeirri firringu að veifa „erlendum niðurstöðum
yfir íslenzkum málefnum, og erlendum skýringardæmum“ sem stuðli að
algjöru skilningsleysi „milli listamanna og þeirra, sem vilja njóta listar og
hafa þörf fyrir það“.73
Það getur svo legið á milli hluta hvaða viðhorf ríkja til bókmennta
yfirleitt. Um það gilda að líkindum engar forsagnir frekar en í skáld-
skapnum sjálfum, enda má vel una því, að nokkur meiningarmunur
sé uppi á meðan íslenzkir mælikvarðar eru notaðir.74
72 Gunnar Benediktsson, „Þegar blindur leiðir…“, bls. 385–387.
73 Indriði G. Þorsteinsson, „Háskólarit á íslensku um skáldskap“, ritdómur um Eðl-
isþætti skáldsögunnar eftir Njörð P. Njarðvík, Vísir, 21. nóvember 1975, bls. 9.
74 Sama rit, bls. 9.
Á SLÓÐUM HJARTALAUSRA FRÆÐINGA