Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 142
141
segir hlutina en hvað hann er að segja. Umbúðirnar verða mikilvæg-
ari en innihaldið […].94
Jón Kalman Stefánsson bendir sama ár á að fólk geri „ósjálfrátt þá kröfu
að skrif gagnrýnenda séu visst andóf við oflofið sem útgefendur hlaða á
bækurnar, á káputextum og í auglýsingum, í þeirri von að þær seljist betur“
og að sú krafa taki „mið af eðli gagnrýninnar“. Það sé „bæði dapurlegt og
háskalegt ef bókmenntagagnrýni [sé] á góðri leið með að sameinast yfir-
borðsmennskunni, skruminu“ og „blaðrið hafi tekið öll völdin“, en Jón
Kalman óttast m.a. að höfundar fari „að sveigja skáldskapinn undir lög-
mál markaðarins“ þannig að verk þeirra verði einnig „merkt blaðrinu“.95
Slíkum ásökunum er oft tvinnað saman við þá hugmynd að akademísk
teoría sé orðin elítísk, sjálfhverf og firrt. Árið 1990 segir Guðmundur
Andri Thorsson til dæmis að „„[u]mræðan“ sem fram fór í tímaritum og
háskólum og í listaverkum“ áratuginn á undan hafi falist „í merkingarleg-
um nihilisma, upplausn og afbyggingu“, „í því að tæta í sundur og greina
í hel ólíka orðræðuhætti, leika sér með kerfin, skella þeim í tölvu og fíflast
með þau og aðeins upphafsmennirnir mundu til hvers“.96
Snobb eða lágkúra
Það er athyglisvert að gagnrýnandinn sem hampað er í markaðs- og af-
þreyingarvæddu fjölmiðlaumhverfi kemur fram sem fulltrúi þeirrar
alþýðu sem stígur á bremsuna og vill stoppa hina firrtu, „brjáluðu fræði-
menn“. Árið 1991 birtist viðtal við bókmenntagagnrýnandann Kolbrúnu
Bergþórsdóttur í Pressunni þar sem fram kemur að Kolbrún sé kennari,
sölumaður og starfi á fjölmörgum vinnustöðum auk þess að vera bók-
menntagagnrýnandi á Aðalstöðinni – að hún sé fulltrúi hins venjulega
manns sem lesandi gæti rekist á víða í daglegu amstri:
Kolbrún gæti verið kennari dóttur þinnar eða litla frænda þíns, hún
gæti séð um að þú fengir blöðin á réttum tíma á morgnana eða selt
þér eitthvað sem þú hefur engin not fyrir í gegnum síma. Kolbrún
94 Sandra Berg Cepero, „Gagnrýni í hnotskurn“, grein með viðtölum við gagnrýn-
endur, Mannlíf, 10/2002, bls. 102–108, hér bls. 106.
95 Jón Kalman Stefánsson, „Algjörlega brillíant“, Lesbók Morgunblaðsins, 14. desember
2002, bls. 10–11, hér bls. 10.
96 Guðmundur Andri Thorsson, „Af óhamingjusömum fjölskyldum. Þankar um
íslenskar skáldsögur“, Tímarit Máls og menningar, 1/1990, bls. 67–75, hér bls. 68.
Á SLÓÐUM HJARTALAUSRA FRÆÐINGA