Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 145
144
Kolbrún segir þó jafnframt að „karlmenn sem ekki telja eftir sér að skrifa
lærðar ritgerðir um Batman og vélsagarmorðingjann“ séu „litlu skárri“ en
Helga Kress sem hafi „unnið íslenskum bókmenntum mikið ógagn með
bullinu í sér“ um fræðikenningar Juliu Kristevu.105 Hún sakar fræðimenn
sem sagt annars vegar um að láta snobb og menntahroka villa sér sýn og
hins vegar um að daðra við lágkúrulega afþreyingarmenningu.
Þegar Kolbrún Bergþórsdóttir er orðin ritdómari hjá Pressunni er henni
í auglýsingum blaðsins gjarnan stillt upp sem fulltrúa alþýðunnar í and-
stöðu við firrt og sjálfhverf vísindi nútímans og m.a. sagt að „[þ]ótt Kolbrún
hafi stundað nám í Háskólanum [sé] hún ekki bundin í viðjar neinna fræði-
kenninga, heldur [sé] aðalmælikvarði hennar hvort bók er skemmtileg eða
ánægjuleg aflestrar“.106 Sjálf undirstrikar Kolbrún muninn á almennu gild-
ismati og gildismati háskólafólks nútímans í ýmsum greinum og ritdómum,
til dæmis í eftirfarandi ummælum um bókina Þetta er allt að koma:
Ég á ekki von á að þessi bók verði tilnefnd til verðlauna og hún verð-
ur örugglega ekki sett á lestrarlista í bókmenntadeild Háskólans. Til
þess mun hún þykja of skemmtileg. En hún mun skipa veglegan sess
í bókaskáp húmoristanna. Vegna þess að hún er svo skemmtileg.107
Hér er megináhersla lögð á lestraránægju, en Kolbrún byggir ritdóma
sína á hinni aldagömlu hugmynd að mælikvarða á fegurð megi finna í til-
finningatengdum eiginleika, sammannlegri smekkvísi. „[Þ]egar frásögnin
tekur hvað eftir annað að rísa í fullkomnu samræmi tilfinninga, fegurð-
ar og næmis þá fær enginn smekkvís lesandi neitað því að hann er að
lesa afburðaskáldskap“, segir hún til dæmis í einum ritdómnum.108 Þegar
henni er stillt upp sem andstæðu háskólafólks er hins vegar litið fram hjá
því að akademískir ritdómarar hafa alla tíð verið meðvitaðir um kröfuna
um það sem Thor Vilhjálmsson kallar „hrifnigáfu“, „að tengsl séu milli
hugar og hjarta“.109 Soffía Auður Birgisdóttir fullvissar til dæmis menn
105 Sama rit, bls. 21.
106 „Sex skemmtileg og lífleg blöð um bækur og plötur“, Pressan, Plötu- og bókablað,
5. nóvember 1992, bls. 29.
107 Kolbrún Bergþórsdóttir, „Jólabók húmoristanna“, ritdómur um Þetta er allt að koma
eftir Hallgrím Helgason, Helgarpósturinn, 1. desember 1994, bls. 19.
108 Kolbrún Bergþórsdóttir, „Elskhugi lafði Chatterley“, ritdómur um Elskhuga lafði
Chatterley eftir D.H. Lawrence í þýðingu Jóns Thoroddsens, Pressan, 27. ágúst
1992, bls. 37 og 39, hér bls. 39.
109 Thor Vilhjálmsson, „Gagnrýnandi sem lýgur er réttdræpur“, Pressan, Plötu- og
bókablað, 26. nóvember 1992, B 3.
AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR