Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 148
147
Birtingur, sem kom út á árunum 1955–1968, hafði að markmiði að flytja
strauma og stefnur alþjóðlegs módernisma til Íslands og efla þannig nýsköpun
í listum og bókmenntum sem og menningarstarfsemi og menningarumræðu.
Hann var ekki eina tímaritið sem stofnað var á Íslandi í þessum tilgangi en hið
langlífasta og tvímælalaust áhrifamesta. Tímaritið bar sama nafn og annað
eldra tímarit sem skáldið Einar Bragi (1921–2005) hafði gefið út árin 1953
og 1954. Nú hafði honum tekist að fá nokkra aðra listamenn í lið með sér.
Kjarnann í hóp Birtingsmanna mynduðu, ásamt Einari Braga, atómskáldið Jón
Óskar (1921–1998), Thor Vilhjálmsson (1925–2011), sem var einn af braut-
ryðjendum módernískrar sagnagerðar á Íslandi, og Hörður Ágústsson (1922–
2005), einn forvitnilegasti fulltrúi geómetríska abstraktsins, sérfræðingur um
sögu íslenskrar byggingarlistar og hönnuður. Þessir fjórir voru í ritstjórn allt
frá fyrsta hefti 1955 til þess síðasta. Fimm aðrir komu að ritstjórninni en mun
minna, ljóðskáldið Hannes Sigfússon (1922–1997), Geir Kristjánsson (1923–
1991), smásagnahöfundur og þýðandi, og Jóhann Hjálmarsson (f. 1939), ljóð-
skáld, ásamt Birni Th. Björnssyni (1922–2007), listfræðingi og rithöfundi,
og Atla Heimi Sveinssyni (f. 1938) tónskáldi. Í þessari grein verða skoðuð
helstu einkenni Birtings og rætt um hlutverk ritsins í íslensku menningar-
lífi en fyrst verður hugað að alþjóðlegu samhengi útgáfunnar.
Lítið tímarit ætlað almenningi
Frederick J. Hoffman, Charles Allen og Carolyn F. Ulrich segja í riti sínu
um módernísk tímarit, eða lítil tímarit eins og þau hafa einnig verið nefnd,
að þau hafi annars vegar verið stofnuð til þess að gera uppreisn gegn hefð-
bundnum tjáningar formum og vinna að tilraunum með ný og hins vegar
Þröstur Helgason
Móderníska tímaritið Birtingur
Ritið 2/2015, bls. 147–180