Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 157
156
að rækta gamla menningu þjóðarinnar en þær stinga óneitanlega í stúf við
smáprósa Thors, skissur Steinars Sigurjónssonar, ljóð Arturs Lundkvist og
Sigfúsar Daðasonar svo dæmi séu nefnd um annað efni í heftinu. Sigfús gerir
athugasemd við birtingu þessa gamla efnis í bréfi til Jóns Óskars nokkrum
vikum eftir að heftið kemur út. Honum þykir „hálfklökkt að byrja svona
merkilegt tímarit“ á þýðingunni, auk þess sem Halldór hafi prentað hana
tvisvar eða þrisvar áður.29 Viðbrögð Sigfúsar eru full af háði en hann segist
telja að Birtingsmenn fái „ekki orð fyrir að hafa mikið að segja landslýðnum“
þegar þeir eyði takmörkuðu rýminu í að „prenta upp það sem hvert manns-
barn þekkir m.a.s. Jónas og Vísur Fiðlu-Bjarnar (næst skuluð þið prenta: Nú
er frost á Fróni)“.30
Ýmislegt bendir þannig til þess að Birtingi hafi verið ætlað að höfða
til fleiri en þröngs hóps áhugamanna um nýjungar í skáldskap og listum
og því eigi það atriði í skilgreiningu Hoffmans, Allens og Ulrichs á litlum
tímaritum ekki vel við hann. Spjaldskrá um áskrifendur ritsins sýnir að þeir
voru vissulega að langmestu leyti menntafólk. Kennarar í grunnskólum
og menntaskólum víða um land eru sennilega fjölmennasti hópurinn en
einnig eru stjórnmálamenn, háskólakennarar, embættismenn, listamenn
og rithöfundar áberandi í skránni.31 En á meðal áskrifenda eru einnig
bændur, iðnaðarmenn af ýmsu tagi, húsmæður, húsverðir og áfram mætti
telja. Einnig er athyglisvert að áskrifendur eru að stórum hluta af lands-
byggðinni.
Fjárhagslega veikur en sjálfstæður
Þó að Birtingsmenn hafi ætlað sér að ná til almennings var markaðsstarfið
ekki umfangsmikið. Það verður heldur ekki séð að þeir hafi í miklum mæli
tileinkað sér orðfæri og aðferðir markaðsdrifinna tímarita og blaða, líkt
og greina má í kynningarstarfi sumra lítilla tímarita frá því snemma á síð-
ustu öld í Bretlandi og Bandaríkjunum.32 Birtingur er einkum kynntur í
ritstjórnargreinum hans sem birtast þó ekki í öllum heftum og leggjast af
nokkru áður en tímaritið hættir að koma út. Þar eru áskrifendur hvattir til
þess að aðstoða við áskrifendasöfnunina. Í þessum skrifum bregður ein-
29 Lbs. 209 NF, Sigfús Daðason, Bréfasafn, Sigfús Daðason, 28. febrúar 1955.
30 Sama heimild.
31 Birtingsmenn hafa litið á framhaldsskólakennara sem mikilvægan markhóp. Í
skjalasafni tímaritsins er að finna skrá yfir alla starfandi kennara við framhaldsskóla
á Íslandi skólaárið 1956 til 1957.
32 Sjá Mark Morrisson, The Public Face of Modernism, bls. 84–132.
ÞRÖSTUR HELGASON